Heimilin í landinu verði verr stödd

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. Ljósmynd/Aðsend

Stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands, sem kynnt var í morgun, mun koma illa við heimilin í landinu, enda hafa margir spennt bogann hátt með húsnæðislánum að undanförnu. 

Þetta segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, í samtali við mbl.is. 

„Það sem þetta þýðir fyrir fólk með húsnæðislán, sem er kannski búið að spenna sig hátt á húsnæðismarkaðnum að undaförnu, er um 7.500 króna hækkun á greiðslubyrði miðað við þessa 0,25% hækkun stýrivaxta,“ segir Drífa og bætir við:

„Þannig þessar vaxtahækkanir sem hafa verið undanfarið, ef við miðum bara við 50 milljóna króna lán, þá er þetta farið að taka allhressilega í og éta upp þær launahækkanir sem við höfum samið um.“

Drífa segir að húsnæðismálin munu spila stórt hlutverk í næstu kjaraviðræðum og segist hún vona að sú ríkisstjórn sem taki við muni geta þess í sínum stjórnarsáttmála. Hún segir þannig að mikilvægt sé að böndum verði komið á húsnæðismarkaðinn, þannig að hann sé ekki sífellt upptrekktur, sem býr til verðbólgu sem leiðir svo til vaxtahækkana.

„Þetta segir okkur, enn og aftur, að húsnæðismálin eru eitt stærsta lífskjaramál eins og staðan er í dag.“

mbl.is