Nýtt 970 íbúða hverfi í skipulagi á Akureyri

Þrívíddarmynd af skipulagstillögunni fyrir nýtt tæplega 1.000 íbúða hverfi vestan …
Þrívíddarmynd af skipulagstillögunni fyrir nýtt tæplega 1.000 íbúða hverfi vestan Borgarbrautar á Akureyri.

Gert er ráð fyrir nýju hverfi vestan Borgarbrautar á Akureyri samkvæmt nýjum drögum að deiliskipulagi sem kynnt voru í dag og birtar á vef bæjarins. Á hverfið að vera með 970 íbúðum og geta hýst 1.900-2.300 íbúa. Til samanburðar eru íbúar á Akureyri í dag tæplega 19.000 og gæti þetta nýja hverfi því staðið undir um 12% fjölgun íbúa í bænum.

Skipulagssvæðið er um 45 hektarar og afmarkast svæðið af lóðarmörkum við Urðargil, Vestursíðu og Borgarsíðu í austri, framhaldi af Síðubraut í norðvestri og af 100 m hæðarlínu í suðvestri.

Fimmtungur í sérbýli

Í tilkynningu frá Akureyri kemur fram að áætlað sé að íbúðirnar muni rísa á næstu árum og að markmiðið sé að byggja til vistvænt og grænt hverfi með sjálfbærni að leiðarljósi.Þar verði blágrænar ofanvatnslausnir, göngu- og hjólastígar í sérrými, kvaðir um trjágróður og aðgengi að útivistarsvæðum.

Svæðið vestan Borgarbrautarinnar lítur svona út í dag.
Svæðið vestan Borgarbrautarinnar lítur svona út í dag.

Miðað við drögin er gert ráð fyrir að íbúðir í fjölbýli verði 77-80% og 20-23% í sérbýli. Það þýðir að álíka mikið landsvæði fyrir undir fjölbýli og sérbýli.

Hæstu fjölbýlin verði 7-9 hæðir

Nýja hverfið er skipulagt fyrir vestan og ofan Síðuhverfi og fyrir norðan Giljahverfi. Gert er ráð fyrir að hæstu fjölbýlishúsin verði 7-9 hæðir í norðurenda hverfisins. Meðfram Borgarbraut verði svo 4 hæða fjölbýlishús og þar fyrir vestan 2-4 hæða randbyggð. Þar fyrir vestan verði svo sérbýli og minni fjölbýlishús á 1-2 hæðum.

Gert er ráð fyrir að uppbygging íbúðarbyggðar hefjist úr suðri vegna nálægðar við Síðuskóla. Þar er svigrúm fyrir fjölgun nemenda og því ekki talin þörf á að byggja grunnskóla á svæðinu ofan Borgarbrautar.

Horft frá norðri á þrívíðarmynd af nýju skipulagsdrögunum.
Horft frá norðri á þrívíðarmynd af nýju skipulagsdrögunum.

Í kynningu fyrir skipulagsdrögin er samanburður við önnur hverfi í bænum, en í Naustahverfi eru meðal annars 1.100 íbúðir, þar af 750 í fjölbýli og 350 í sérbýli. Í Hagahverfi eru 800 íbúðir, þar af 710 í fjölbýli og 90 í sérbýli. Er þéttleiki hverfanna 24 íbúðir á hektara og 38 íbúar á hektara. Í nýja hverfinu sem nú er lagt til að byggja er hins vegar þéttleiki upp á 28-30 íbúðir á hektara.

Frekari kynningargögn um skipulagstillöguna má finna hér og hér.

mbl.is