Segir ríkið ekki hafa grænan grun

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Á. Andersen, fráfarandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir ríkið ekki hafa hugmynd um hvort margra milljarða króna skattaívilnanir, sem það veitir árlega til lífeldsneytis og rafbíla, dragi úr losun koltvíoxíðs. Þykir henni athugavert að aðgerðir sem kosti ríkið slíkar fjárhæðir séu til staðar án þess að árangur þeirra liggi fyrir.

Þetta kemur fram í pistli á vefsíðu hennar.

Sigríður sendi fyrirspurn á Alþingi þar sem hún vildi meðal annars fá að vita hve háum fjárhæðum undanþágurnar frá sköttum námu og hver kostnaður ríkissjóðs við ívilnun er á hvert tonn koltvíoxíðs sem þessi aðgerð er talin draga úr losun á.

Vekur hún athygli á að í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn hennar kemur fram að: „Þar sem ekki liggja fyrir upplýsingar um samdrátt losunar á CO₂ vegna þessara ívilnana er ekki mögulegt að reikna kostnað pr. CO₂ tonn.“

2,4 milljarða skattaívilnun á síðasta ári

Í svari ráðherra kemur jafnframt fram að innflutningur lífeldsneytis til íblöndunar í hefðbundið eldsneyti hafi notið 2,4 milljarða skattaívilnunar árið 2020. Þykir Sigríði athugavert að þessar ívilnanir, sem hafa kostað ríkið marga milljarða, hafi verið til staðar frá árinu 2011 án þess að enginn geri sér grein fyrir árangri þeirra.

„Milljarðar streyma úr landi til kaupa á dýru og orkusnauðu lífeldsneyti en enginn veit hvað fæst fyrir peninginn. Ég lagði þegar árið 2015 fram frumvarp í félagi við Frosta Sigurjónsson, Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Willum Þór Þórsson um að stöðva þennan straum fjármuna úr landi. Frumvarpið náði ekki fram að ganga,“ segir í pistlinum.

Einungis 4% losun vegna einkabíla

Hún bendir einnig á að aðeins 4% losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi megi rekja til einkabíla, losun sem hún telur að muni hverfa með nýrri tækni án þess að ríkið þurfi að beita aðgerðum sem kosti það milljarða.

„Rafbílar fengu á síðasta ári rúmar 5 þúsund milljónir með endurgreiðslu ríkisins á virðisaukaskatti. Að auki eru ekki greidd vörugjöld (sem geta verið 60% á bensínbíl) af innflutningi rafbíla. Þeir bera lægri bifreiðagjöld og engin gjöld á orkuna sem þeir nota. Ekki liggur fyrir hvað þessir milljarðar á milljarða ofan skila miklum samdrætti í losun.“

Sigríður segir ríkið ekki hafa grænan grun um hvaða árangur umræddur ríkisstuðningur skili og því geti það ekki svarað hvort að aðrir valkostir á borð við endurheimt votlendis eða skógrækt skili meiri árangri við loftslagsaðgerðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina