Tryggja starfsfólki 80% launa í fæðingarorlofi

Styrkurinn kemur til viðbótar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og kjarasamningsbundnum styrkjum.
Styrkurinn kemur til viðbótar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og kjarasamningsbundnum styrkjum. Eggert Jóhannesson

Arion banki hyggst ráðast í að jafna hlut kynjanna með því að tryggja starfsfólki 80 prósenta launa í fæðingarorlofi í sex mánuði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Fram kemur að með þessu muni bankinn, þegar við á og í samræmi við reglur Fæðingarorlofssjóðs, greiða starfsfólki í fæðingarorlofi sérstakan viðbótarstyrk.

Styrkurinn kemur til viðbótar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og kjarasamningsbundnum styrkjum svo að laun í fæðingarorlofi komist sem næst 80 prósentum launa.

„Staðreyndin er sú að meðallaun karla, bæði í Arion banka og samfélaginu öllu, eru hærri en meðallaun kvenna og feður nýta að jafnaði síður fæðingarorlofsrétt sinn en mæður. Með því að tryggja starfsfólki 80% launa í fæðingarorlofi er foreldrum, óháð kyni eða annarri stöðu, auðveldað að nýta fæðingarorlofsrétt sinn,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert