Ástæða til að skoða landamæramálin alvarlega

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við berum okkur almennt saman við Norðurlöndin. Löndin hafa haft ýmsan hátt á í Covid bæði varðandi ráðstafanir innanlands og á landamærum. En þegar öll helstu lönd sem við berum okkur saman við eru farin að beita vægari úrræðum á landamærum en við gerum finnst mér ástæða til að skoða það alvarlega. Enda erum við ekki að leggja til að útrýma Covid frá Íslandi.“ Þetta segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra í samtali við mbl.is.

„Það er rétt að við erum með harðari ráðstafanir á landamærum hér en eru í löndunum í kringum okkur, meira að segja gagnvart bólusettu fólki,“ sagði Þórdís. „Við vitum að allar slíkar hindranir hafa áhrif á ferðahegðun fólks og flugfélög sem taka ákvörðum um hvert þau eiga að fljúga.“

Guðmundur Daði Rún­ars­syni, fram­kvæmda­stjóri viðskipta og þró­un­ar hjá Isa­via, sagði að harðar og sí­breyti­leg­ar sótt­varnaaðgerðir á landa­mær­un­um fæli er­lend flug­fé­lög frá land­inu. 

Þórdís sagði að sér þyki það miður að við séum að missa flugleiðir og flugfélög vegna þessara ráðstafana. „Fólk sem býr á eyju þarf góðar tengingar við umheiminn. Það skiptir máli fyrir nánast alla þætti samfélagsins. Ég hef sýnt því ákveðinn skilning að við viljum fara varlega. En við hljótum líka að líta í kringum okkur og bera okkur saman við löndin í kringum okkur.“

Þórdís kvaðst hafa verið þeirrar skoðunar að við þurfum að taka stærri ákvarðanir varðandi framhaldið þegar kemur að því að lifa með þeirri staðreynd að Covid verður áfram með okkur. „Ekki veitir af þeim umsvifum sem fylgja bata í ferðaþjónustunni. Ríkissjóður er rekinn með halla og það eru mörg verkefni sem kjósendur og stjórnmálaflokkar og -fólk vill gjarnan komast í. Það þarf að skapa verðmæti til að eiga fyrir því.“

Þórdís sagði ekki þar með sagt að kasta eigi heilbrigðissjónarmiðum til hliðar, ekki frekar en að löndin í kringum okkar séu að gera það. Einhvern tíma munum við þurfa að opna meira en nú er gert. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert