Landsliðið í skógarhöggi í Vaðlareit

Jón Heiðar Rúnarsson og Ingólfur Jóhannesson, fram-kvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyjafjarðar, við …
Jón Heiðar Rúnarsson og Ingólfur Jóhannesson, fram-kvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyjafjarðar, við fallið tré. mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir


„Þetta er mjög stórt verkefni, en skemmtilegt. Þetta er samfélagsverkefni og ávinningurinn fyrir íbúa hér um slóðir verður mikill,“ segir Jón Heiðar Rúnarsson skógarhöggsmaður, sem ásamt mörgum af reyndustu skógarhöggsmönnum landsins er önnum kafinn við að höggva tré í Vaðlareit handan Akureyrar.

Til stendur að leggja stíg um Vaðlareit sem verður hluti af hjóla- og göngustíg sem nær frá mörkum Akureyrar við Leirubrú og að norðurmörkum Svalbarðsstrandarhrepps. Fyrsti áfangi verksins nær frá Vaðlaheiðargöngum og að Skógarböðum sem verið er að reisa syðst í Vaðlareitnum.

Ansi mikið verk

Jón Heiðar segir að verkið taki um tvær vikur og þá fyrri verður höggvið í óðaönn þá tæpu 2 kílómetra sem stígurinn um reitinn er. Síðari vikan verður notuð til að fara yfir verkið, snyrta og lagfæra.

Unnið við skógarhögg í Vaðlareit.
Unnið við skógarhögg í Vaðlareit. mbl.is/Margrét Þóra


Skógræktarfélag Eyjafjarðar stendur fyrir skógarhögginu, en Svalbarðsstrandarhreppur sér um gerð göngu- og hjólastígsins. Vatn frá Vaðlaheiðargöngum verður leitt undir stíginn, bæði heitt og kalt, og að Skógarböðunum og eins til Akureyrar. Skógræktarfélagið hafði samband við Jón Heiðar vegna þessa verkefnis, en hann á félagið Skógarmenn.

Fjölbreyttur skógur

„Ég fór strax af stað og hóaði í landsliðið,“ segir hann en skógarhöggsmenn af stóru svæði voru kallaðir til, frá Egilsstöðum til Reykjavíkur. Þegar mest er mæta 11 skógarhöggsmenn í vinnuna í Vaðlareit segir Jón Heiðar og tveir og tveir vinna saman og taka ákveðna bita af skóginum og aðrir tveir koma á móti. Þannig eru skógarhöggsmennirnir dreifðir um allan reit, frá norðri og suður úr.

„Þetta gengur vel, skógurinn er fjölbreyttur, þarna er birkikjarr og allt upp í stærðarinnar greni- og furutré og allt þar á milli þannig að við erum að fást við alls konar á leiðinni í gegn,“ segir Jón Heiðar.

Hann segir gaman að taka þátt í þessu verkefni og er sannfærður um að þessi stígur opni möguleika fyrir marga að fara um fallegan stað sem ekki var aðgengilegur áður. „Þetta verður algjör perla, áningarstaðir með góðu útsýni sem eflaust draga að sér fólk sem einnig mun nýta stíginn í heilsubótargöngu eða til hjólreiða.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »