Varla hægt að kaupa blómkál í búðum lengur

Á sama tíma er lítið til af spergilkáli.
Á sama tíma er lítið til af spergilkáli. Þorkell Þorkelsson

Lítið framboð af innlendri uppskeru og háir tollar á innflutning hefur orðið til þess að nánast ómögulegt er að fá blómkál í matvöruverslunum.

Á sama tíma er lítið til af spergilkáli. Þetta segir á vef Félags atvinnurekenda en fyrir tæpum mánuði var greint frá því að skortur væri á selleríi af sömu ástæðum.

Innlendir dreifingaraðilar hafi undanfarna viku fengið aðeins innan við 10% upp í pantanir á blómkáli og spergilkáli. Þá hafi ekkert sellerí borist. Verðtollur á grænmetið sem um ræðir nemur 30 prósentum auk þess er fastur magntollur á kílóið 176 krónur fyrir blómkál og spergilkál og 276 krónur fyrir sellerí.

Innflutningsfyrirtæki treysti sér því ekki að flytja grænmetið inn nema í litlum mæli vegna tollanna, sem munu vara fram til 15. október.

mbl.is