Ferðaþjónusta í nýrri heimsmynd

Ásta Kristín er framkvæmdastjóri Ferðaklasans.
Ásta Kristín er framkvæmdastjóri Ferðaklasans. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það má ekki gleyma því að það sem er gott fyrir gestina okkar, ferðamenn og ævintýrafólk sem vill koma hingað til lands, er líka gott fyrir heimamanninn. Því þar sem er gott að ferðast er oftast nær líka gott að búa og öfugt,“ segir Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans, sem samanstendur af fyrirtækjum og stofnunum úr breiðri virðiskeðju ferðaþjónustunnar.

Ásta var létt í viðmóti þegar Morgunblaðið bar að garði í nýsköpunarsetrinu Grósku, þar sem klasinn er til húsa, en þau vinna nú hörðum höndum að undirbúningi ráðstefnunnar What Works sem fer fram 14. október í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Ráðstefnan er nú haldin í fimmta sinn og er á vegum Social Progress Imperative-stofnunarinnar og Cognitio, fulltrúa hennar hér á landi.

Í ár er sjónum beint að einni atvinnugrein: Ferðaþjónustunni.

Tímabundnir íbúar landsins

Ásta segir að aðallega verði rædd félagsleg áhrif ferðaþjónustunnar um heim allan, sem og sjálfbærni greinarinnar í nýrri heimsmynd.

„Ef þú ert ferðamaður þá ertu í rauninni tímabundinn íbúi á Íslandi meðan þú ert hérna,“ segir Ásta.

„Hvað fáum við út í samfélagið? Við höfum ótal dæmi um staði úti um allt land þar sem aukin ferðaþjónusta hefur haft í för með sér aukið þjónustu- og atvinnustig með tilheyrandi lífskjaraaukningu fyrir íbúa.

„Tökum sem dæmi að þegar opnaður er veitingastaður, þá þarf staðurinn húsnæði, kaupir hráefni, borgar fólki laun sem rennir frekari stoðum undir nærsamfélag staðarins. Virðiskeðja ferðaþjónustunnar er mjög löng og í kringum hvern og einn ferðamann er hringrás mjög fjölbeyttrar þjónustu sem innt er af hendi af fjölbreyttum hópi fyrirtækja. Því sé ótvírætt um félagsleg áhrif greinarinnar.

„Ferðaþjónustan er, eins og við segjum alltaf, framkvæmd af fólki fyrir fólk og þó svo að við séum alltaf að hugsa um nýjar og snertilausar lausnir þá, í lok dags, snýst þetta alltaf um fólk að veita þjónustu og einstaka upplifun.“

Þá hafi heimsfaraldurinn tímabundið gert rekstrarumhverfi greinarinnar nánast óbærilegt.

„Við erum að sjá það að það er ekki einungis fjárhagslegur vandi sem stjórnendur í ferðaþjónustu standa frammi fyrir heldur er líka erfitt fyrir mörg ferðaþjónustufyrirtæki að fá starfsmenn aftur inn í greinina. Það er bæði ótti um að svona geti gerst aftur og starfsöryggi sé ekki tryggt,“ segir hún. Þar að auki sé verið að biðja þá starfsmenn um að vera „framar í víglínunni“ með því að vera innan um fólk sem er nýlega komið hingað til lands.

Heimsfaraldurinn er þó ekki eina áskorunin sem ferðaþjónustan hefur staðið frammi fyrir, enda er ljóst að loftslagsváin mun hafa enn meiri áhrif á greinina en hún hefur hingað til. Ásta segir Íslenska ferðaklasann mikið rætt lausnir og á ráðstefnunni verði sérstakt erindi tileinkað framtíðinni.

Nánari umfjöllun er á síðu 18 í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »