Strengurinn kemur á land við Þorlákshöfn

Horft yfir Þorlákshöfn.
Horft yfir Þorlákshöfn. mbl.is/Sigurður Bogi

Ákveðið hefur verið að þriðji fjarskiptasæstrengurinn ÍRIS, sem liggja mun milli Íslands og Írlands, komi á land í Þorlákshöfn. „Lendingarstaður strengsins var færður frá Grindavík til Þorlákshafnar í sumar,“ segir Þorvarður Sveinsson framkvæmdastjóri Farice ehf., í svari til blaðsins. Ýmsir valkostir hafa verið skoðaðir. Var frétt um endanlegan lendingarstað birt á vefsíðu Farice 1. september.

Hafin er skipulagsvinna í Þorlákshöfn vegna sæstrengsins og auglýst breyting á deiliskipulagi hafnarsvæðis vegna lóðar og tengihúss fyrir strenginn. Bæjaryfirvöldum í Grindavík var hins vegar í gær ekki kunnugt um að hætt hefði verið við að taka strenginn á land í Hraunsvík austan Grindavíkur og er vinna við breytingar á aðalskipulagi vegna þess á lokametrunum.

Hjörtur Jónsson hafnarstjóri í Þorlákshöfn segir að strengurinn eigi að koma á land norðaustan við bæinn og vinna standi yfir við skipulagsmálin í kringum það vegna tengivirkis sem reist verði á lóð sem úthluta á. Á hann von á að vinna við það fari í gang í haust og vetur. „Þeir ætluðu að fara með strenginn í land austan við Grindavík en hættu við það að ég held út af þessum óróa á Reykjanesinu. Þeir sögðu mér að það væri ástæðan fyrir því að hætt væri við það og þess vegna komu þeir til okkar,“ segir Hjörtur. Ekki er um umfangsmiklar framkvæmdir að ræða en reisa þarf 60-100 fermetra hús undir tengivirki.

Hafa haldið sínu striki

Fannar Jónasson bæjarstjóri í Grindavík sagðist í gær ekki vita betur en að enn væri til skoðunar að strengurinn kæmi á land við Grindavík. „Við höfum bara haldið okkar striki varðandi skipulagsmál og annað sem að okkur lýtur, þannig að það hefur ekkert verið slegið af hvað það varðar,“ segir Fannar. Hann segir að upphaflega hafi staðið til að taka strenginn á land vestast á Reykjanesinu en að ráðleggingum jarðfræðinga hafi verið ákveðið að setja hann frekar á land í Hraunsvíkinni við Grindavík. „En í ljósi jarðhræringa og eldgossins þá fóru þeir að skoða Þorlákshöfn, sem ekki var inni í myndinni upphaflega vegna nálægðar við næsta streng sem er í Landeyjum. Ég held að það hafi síðan bara verið opnað á það líka að skoða þetta samhliða.“

Í tillögu að breytingu á aðalskipulagi Grindvíkur er m.a. gert ráð fyrir mannvirkjabelti fyrir lagnir í jörðu á landi í Hraunsvík og meðfram Suðurstrandarvegi. Fannar segir að búið hafi verið að ná samkomulagi við landeigendur um aðstöðuhús og fara yfir málin með fyrirtækjum í sjávarútvegi vegna fiskimiða undan landi o.fl. „Þetta er langt komið í gegnum aðalskipulag og er bara á lokametrunum þannig að það verður allt tilbúið af okkar hálfu, svo á bara eftir að koma í ljós hver niðurstaðan verður hjá þeim,“ sagði hann.

Tilbúinn fyrir árslok 2022

Þorvarður segir að verkefnið sé á áætlun. „Framleiðsla strengsins er langt komin og lagning hefst frá Íslandi næsta vor. Kerfið verður, ef allt gengur samkvæmt áætlun, tilbúið til notkunar fyrir árslok 2022.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »