Það er reimt í Háskólabíói

Háskólabíó í kvöldhúminu.
Háskólabíó í kvöldhúminu.

„Orðróm?“ hváir Þorvaldur Kolbeins, Þorri, rekstrarstjóri Háskólabíós spurður um meintan draugagang í húsinu. „Það er enginn orðrómur; hér er reimt. Það hef ég vitað lengi. Bæði hef ég séð hér skugga sem ég get ekki útskýrt og orðið var við hljóð og umgang. Það er til dæmis reglulega kveikt ljós á klósettinu og halað niður án þess að nokkur sé sjáanlegur á staðnum.“

Agnar Hermannsson, tæknimaður í húsinu, staðfestir þetta með klósettið, þannig að draugurinn eða draugarnir virðast vera með lélega blöðru. Agnar er stundum einn í húsinu á nóttunni, vegna vinnu sinnar, og heyrir iðulega hljóð um svipað leyti. „Það er eins og það sé umgangur en aldrei neitt eða neinn að sjá. Alls konar smellir líka.“

Þorri ásamt Yoko Ono eftir tónleika The Plastic Ono Band …
Þorri ásamt Yoko Ono eftir tónleika The Plastic Ono Band í Háskólabíói árið 2010.

Margrét Gunnarsdóttir, fjármálastjóri, Þorri og Agnar vita ekki hver er þarna á ferð en aðalatriðið er að ekkert þeirra hefur fundið til ótta. „Það er gott á milli okkar, draugsins eða drauganna,“ segir Þorri og Agnar bætir við: „Maður venst þessu fljótt, þessi draugur eða draugar hafa þægilega nærveru.“

Sextíu ár voru í vikunni liðin frá vígslu Háskólabíós sem markaði þáttaskil í menningar- og listalífi þjóðarinnar. Loksins var komið til sögunnar hús sem sómt hefði sér vel í hvaða stórborg sem er og gat hýst stærri viðburði á borð við tónleika og ráðstefnur, auk þess að svala kvikmyndaþorsta landans. 

Nafnið ekki öllum að skapi

Nafnið Háskólabíó var þó ekki öllum að skapi – enda orðið „bíó“ ekki af íslenskum stofni – og spunnust um það heitar umræður í fjölmiðlum. Morgunblaðið lýsti til að mynda vonbrigðum sínum í forystugrein. „Á það hefur verið bent hér í blaðinu, að auðvelt hefði verið að finna íslenzkt heiti á þessa stofnun. Hefur í því sambandi verið bent á ýmis nöfn af rammíslenzkum og norrænum uppruna. Vill ekki háskólaráð taka þetta til nánari athugunar?“

Baggalútur hefur haldið yfir 100 jólatónleika í Háskólabíói og verður …
Baggalútur hefur haldið yfir 100 jólatónleika í Háskólabíói og verður á sínum stað nú fyrir jólin eftir árshlé vegna heimsfaraldursins. Ljósmynd/Spessi

Vísir bar þetta undir Friðfinn Ólafsson, fyrsta forstjóra hússins. „Já, það verður látið heita það enn um sinn,“ svaraði hann, „þangað til annað verður ákveðið, og það hefir ekki annað komið til tals, hvað svo sem verða kann, hvort tekið verður tillit til óánægjuradda í blöðum, að seinni parturinn, „bíó“, sé ekki nógu sæmandi fyrir þess konar hús, sem rekið er af hinni virðulegu stofnun.“

Menn stóðu hins vegar í ístaðið og nafnið lifir enn, sex áratugum síðar.

Upprunaleg sæti

Þess má geta að upprunaleg sæti eru enn í stóra salnum. Eins mikið af tæknibúnaði, sem þykir dágott eftir sex áratugi. „Margt af þessu er þó að kveðja okkur,“ segir Þorri, en á dögunum henti hann til dæmis upprunalegum loftræstimótor. Gott þykir að slík græja endist í sex til átta ár í dag.

Louis Armstrong á frægum tónleikum í Háskólabíói árið 1965.
Louis Armstrong á frægum tónleikum í Háskólabíói árið 1965. Mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Margt hefur verið varðveitt. Þannig er inni á skrifstofu hjá Þorra og Margréti flennistór hurð úr stáli. Hún var áður á peningaskáp hússins, sem nú hefur verið hent, enda allir hættir að borga fyrir bíómiðann, poppið og kókið með reiðufé. Í dag er allt rafrænt.

„Það gekk mikið á í þrjúbíóinu í gamla daga; þegar peningum var fyrst mokað niður í skúffu og síðan hlaupið með þá sem leið lá inn í peningaskápinn,“ segir Margrét.
Hún hefur unnið í Háskólabíói í rúma tvo áratugi og Þorri talsvert lengur og tengst húsinu enn lengur. „Ég þekki hjartsláttinn í þessu húsi,“ segir hann.

Þorra þykir Háskólabíó hafa elst rosalega vel, að innan sem utan, enda arkitektúrinn langt á undan sinni samtíð. „Við höfum alla tíð passað vel upp á arkitektúrinn og haldið upprunalegum litum á húsinu. Frá því hvikum við ekki.“

Fjallað er um Háskólabíó og sextíu ára sögu hússins í máli og myndum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Menn bíða spenntir í röð til að komast á frumsýninguna …
Menn bíða spenntir í röð til að komast á frumsýninguna á Rambo II.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »