„Þvílík frammistaða“

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala. Ljósmynd/Landspítali

Síðasti forstjórapistill Páls Matthíassonar, fráfarandi forstjóra Landspítala, birtist á vef Landspítala í gær. Páll hefur, eins og áður hefur komið fram, tekið ákvörðun um að stíga til hliðar eftir 8 ár í forstjórastólnum.

Í pistli sínum fer Páll yfir víðan völl og ítrekar að megin ástæðan fyrir því að hann hætti nú sé sú að hann vilji sinna einkalífinu betur.

Páll segir Landspítala á mun betri stað í dag en þegar hann tók við haustið 2013.

„Spítalinn er miklu stærri, öflugri og meira spennandi vinnustaður nú en þegar ég tók við og sinnir flestum sjúklingum betur,“ segir Páll og nefnir í því samhengi að fjölmargar nýjar tegundir meðferða hafi verið teknar upp, að „þrekvirki“ hafi unnist í mannauðsmálum, tækjabúnaður sé allur annar og húsnæðismál hafi verið bætt.

Ýmsar áskoranir framundan

Páll tekur þó fram að enn sé mikið verk óunnið í því að bæta starfsemi spítalans.

Hann segir að „að öðru ólöstuðu“ sé það frammistaða spítalans í kórónuveirufaraldrinum sem sýnt hafi „hvers hann er megnugur þegar á reynir.“

„Þar lagði starfsfólk nótt við dag, endurskipulagði spítalann frá grunni, fluttist á milli deilda, setti upp sérstaka göngudeild til að halda utan um alla COVID-veika og tók að sér utanumhald og innkaup birgða fyrir allt landið. Þvílík frammistaða, sem verður ekki fullþökkuð.“

Þá segir Páll að framundan séu áskoranir. Þar nefnir hann fyrst „að tryggja að uppbyggingin sem er í gangi við Hringbraut verði sú lyftistöng öryggis og þjónustu við sjúklinga sem vonir standa til. Önnur áskorun er að tryggja fullnægjandi mönnun fagfólks. Það er kannski flóknasta verkefnið sem bíður okkar en þar megum við engan tíma missa. Þriðja áskorunin sem ég vil nefna er sú að efla vísindi og rannsóknir á spítalanum en það snýst öðru fremur um að skilgreina skýrt miklu meira fé til rannsókna (m.a. í gegnum samkeppnissjóði) á spítalanum. Að lokum er það svo verkefnið eilífa, að tryggja Landspítala fullnægjandi rekstrarfé.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert