Ágallar í NV leiði ekki til kosninga á landsvísu

Frá opnum fundi undirbúningsnefndarinnar í dag.
Frá opnum fundi undirbúningsnefndarinnar í dag. mbl.is/Unnur Karen

Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, sagði á opnum fundi undirbúningsnefndar við rannsókn kjörbréfa í dag að ágallar við framkvæmd kosninga í einu kjördæmi ætti ekki að geta leitt til þess að kosið yrði að nýju í öllu landinu. 

„Ég hef skilið það þannig að lögin séu alveg skýr um það að ef það eru einhverjir ágallar á kosningunni í einu tilteknu kjördæmi þá fer uppkosningin fram eingöngu í því kjördæmi en ekki á landinu öllu og að það sé meira að segja bersýnilega gert ráð fyrir því í lögunum að slík uppkosning hafi áhrif á útdeilingu jöfnunarsæta annars staðar.

Frá opnum fundi með Hafsteini Þór Haukssyni.
Frá opnum fundi með Hafsteini Þór Haukssyni. mbl.is/Unnur Karen

Þannig að, að mínum dómi, myndi sú niðurstaða að nauðsynlegt væri að kjósa aftur vegna ágalla á kosningum í Norðvesturkjördæmi aldrei samkvæmt lögum leiða til þess að það ætti að kjósa á öllu landinu,“ sagði Hafsteinn Þór. 

Fundurinn var liður í undirbúningi nefndarinnar þar sem lögmæti kjörbréfa er rannsökuð, og mun nefndin að endingu gefa mat sitt á lögmætinu, en Alþingi mun staðfesta eða eftir atvikum hafna lögmætir þeirra með atkvæðagreiðslu. 

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er formaður nefndarinnar.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er formaður nefndarinnar. mbl.is/Unnur Karen

Innsiglis-leysi ekki nægt eitt og sér

„Ef við einangrum það eitt að innsigli hafi ekki verið notað og ekki búið um kjörgögn nákvæmlega eins og lög gera ráð fyrir þá er það ágalli en ég myndi halda að það eitt og sér að það væri ekki ágalli sem myndi leiða til ógildingar á kosningunni.

Það þyrfti eitthvað annað að koma til, einhver vísbending um það að ætla mætti að það hafi haft áhrif á niðurstöðu kosningannna,“ áréttaði Hafsteinn við spurningu Viljálms Árnasonar er hann spurði um mörk þess hvenær ágalli væri orðinn svo mikill að hann gæti leitt til ógildingar. 

mbl.is