Mikil norðurljósavirkni í kvöld

Norðurljósin eru fögur að sjá.
Norðurljósin eru fögur að sjá. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Gert er ráð fyrir mikilli norðurljósavirkni í kvöld samkvæmt Veðurstofu Íslands. Heiðskýrt verður víðast hvar fyrri hluta kvölds, en svo fer að skýja á Suðvesturhorninu eftir því sem líður á kvöldið. Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar.

Norðurljósavirknina má rekja til stórs sólblossa sem gaus fyrir tveimur dögum, en hann átti að ná til jarðar í dag. Varaði bandaríska veðurstofan NOAA við því að blossinn gæti valdið vægum rafmagnstruflunum og truflað gervihnetti, en sólstormurinn er sagður vera af styrk G2, sem þykir í meðallagi, þar sem G1 er vægasti styrkur og G5 sá mesti.

Þá taldi NOAA mögulegt að styrkur sólblossans gæti verið nægur til að norðurljósin myndu sjást í New York og Wisconsin-ríkjum, en sjaldgæft er að norðurljós sjáist svo sunnarlega á hnettinum. Veðurstofa Bretlands sagði mögulegt að norðurljósa yrði vart á Englandi og Norður-Írlandi, en varaði við að skýjahulan yrði líklega of mikil á Englandi til að þeirra yrði notið þar.

Umfjöllun Stjörnufræðivefsins um sólblossa/sólgos

Spá NOAA

Norðurljósaspá Spaceweatherlive.com

Twitter-færsla bresku veðurstofunnar:

mbl.is