Skiptar skoðanir um endurtalninguna

Ósætti er á meðal frambjóðenda í þingkosningunum um lögmæti Alþingis eftir endurtalninguna frægu í Norðvesturkjördæmi. Það er hvort hún eigi að standa eða hvort grípa eigi til svokallaðrar uppkosningar. Undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa kemur saman í dag kl. 10.30.

Jóhann Páll Jóhannsson er einn þeirra þingmanna sem urðu fyrir því að vera fyrst úti en síðan inni eftir endurtalningu. Hann kveðst óviss um hvernig hann muni kjósa er Alþingi úrskurðar um lögmæti kosninganna. Hann telur þó líklegt að hann sitji hjá.

Jóhann komst inn á Alþingi í stað Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, eftir endurtalninguna, og segir „mjög eðlilegt“ að Rósa Björk hafi kært úrslitin til kjörbréfanefndar.

Pólitískur ómöguleiki

Jóhann Páll segir tvo valmöguleika í stöðunni. Annars vegar að það verði uppkosning í Norðvesturkjördæmi eða lokatalning gildi.

Jóhann Páll Jóhannsson, nýr þingmaður Samfylkingar.
Jóhann Páll Jóhannsson, nýr þingmaður Samfylkingar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér sýnist, ef maður skoðar bæði lögin um kosningar til Alþingis og horfir raunsætt á pólitísku stöðuna, að valmöguleikarnir séu helst tveir. Annaðhvort verði farið í uppkosningu í Norðvesturkjördæmi – það er það sem lögin gera ráð fyrir ef misbrestirnir eru svo miklir að Alþingi telji að það eigi að ógilda kosninguna – eða þá að lokatalningin, sem yfirstjórnin í Norðvestur skilaði af sér, gildi. Verkefni kjörbréfanefndar samkvæmt þingskapalögum er að rannsaka þau kjörbréf sem gefin hafa verið út og svo tekur Alþingi í heild afstöðu til þess hvort þingmenn séu löglega kosnir, samanber 46. grein stjórnarskrár.“

Jóhann Páll sér ekki í stöðunni að fyrri talning í Norðvesturkjördæmi verði látin gilda.

„Ég hef ekki séð skynsamleg lagarök fyrir því að það verði tekið fram fyrir hendur yfirkjörstjórnar og tölur sem voru tilkynntar fyrr í talningarferlinu í Norðvesturkjördæmi látnar gilda, ég sé ekki að það geti orðið niðurstaðan.“

Þá bætir hann við að hann sjái ekki fyrir sér að kosningarnar verði dæmdar ógildar á landsvísu.

„Ég hef enga trú á að það verði kosið aftur á landinu öllu. Ég held einfaldlega að þarna sé ákveðinn pólitískur ómöguleiki, að flokkarnir sem fengu mesta þingstyrkinn muni aldrei leyfa því að gerast,“ segir Jóhann Páll.

Muni sennilega sitja hjá

„Nú veit maður ekki hvað kjörbréfanefndin mun leggja til eftir að hafa lagst yfir kjörbréfin og tekið fyrir kærurnar. Mér finnst ekki ósennilegt, sama hver tillaga kjörbréfanefndar verður, að maður sitji hjá. Þarna eru persónulegir hagsmunir manns undir og erfitt að nálgast þetta óhlutdrægt. En svo getur auðvitað hugsast – þegar öll gögn og sérfræðiálit eru komin fram og heildarsamhengi hlutanna hefur skýrst betur – að maður endi á því að geta ekki, með góðri samvisku, annað en kosið gegn því að kosningin í Norðvesturkjördæmi hafi verið gild.“

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar.
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar. mbl.s/Kristinn Magnússon

Sigmar Guðmundsson, nýkjörinn þingmaður Viðreisnar, er ekki á sama máli og Jóhann. Hann segir uppkosningu í einu kjördæmi ekki lýðræðislega og bætir við að allar upplýsingar þurfi að vera uppi á borðinu áður en þingmenn taka afstöðu til málsins.

„Mér finnst ekki lýðræðislegt að kjósendur í einu kjördæmi geti kosið og búið yfir betri og gleggri upplýsingum um kosningaúrslitin en restin af landsmönnum. Þá fyndist mér frekar að það ætti að kjósa á öllu landinu,“ segir Sigmar í samtali við Morgunblaðið.

Hinum megin við borðið

Guðbrandur Einarsson, nýkjörinn þingmaður Viðreisnar, er einnig í þeirri stöðu að vera inni eftir endurtalninguna. Hann styður ekki kæru Guðmundar Gunnarssonar flokksbróður síns til kjörbréfanefndar, en Guðbrandur kom inn í stað Guðmundar eftir endurtalningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi.

Guðbrandur Einarsson, nýr þingmaður Viðreisnar.
Guðbrandur Einarsson, nýr þingmaður Viðreisnar. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er bara hans ákvörðun og maður virðir hana bara. Ég er auðvitað hinum megin við borðið. Ég lít þannig á að það hafi verið gerð mistök sem voru leiðrétt. Þetta er ekki flókið í mínum huga. Ég lít svo á að síðari talningin sé sú rétta eftir leiðréttinguna,“ segir Guðbrandur í samtali við Morgunblaðið.

Sigmar segir málið óþægilegt. Bendir hann á að bæði Guðbrandur og Guðmundur séu félagar hans. „Þetta er svo óþægilegt fyrir alla hlutaðeigandi flokka. Þetta er einstaklega viðkvæmt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »