Bensínverð að ná hæstu hæðum

Runólfur Ólafsson, formaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda.
Runólfur Ólafsson, formaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda. mbl.is/Árni Sæberg

Runólfur Ólafsson, formaður Félags íslenskra bifreiðaeiganda, segir bensín verðlagningu stefna í methæðir en aðrar eins upphæðir hafa ekki sést á landinu í áratug. 

„Við erum að skríða inn í tímabil sem er að nálgast þessi metár 2011 og 2012. Verðið náði að vera aðeins hærra þá en það er ekkert annað sem nær þessu áður í sögunni. Þetta eru miklar hækkanir sem að koma illa við neytendur og fyrirtæki en því miður höfum við sem eyja út í Norður Atlantshafi kannski lítil áhrif á þetta því hérna erum við að sjá sömu þróun og um veröld alla. Heimsmarkaðurinn hefur verið að rjúka upp,“ segir Runólfur.

Ólíklegt að verðið lækki á næstunni

Hæsta bensínverð á Íslandi nemur nú 274,80 krónum á lítrann hjá Olís Hrauneyjum. Er það um það bil 60 krónum hærra en lægsta verð síðasta árs hjá sama fyrirtæki. Þá hefur bensín verð Costco, sem býður upp á lægsta verðið á landinu, hækkað um 40 krónur á lítrann frá lægsta verði síðasta árs, eða úr 178,90 í 218,9. Munar því næstum 100 krónum á lægsta og hæsta verði milli ára.

Að sögn Runólfs er ekkert í kortunum sem vísar til að þessi verðþróun sé að snúa við á næstu dögum enda sé markaðurinn á Íslandi háður heimsmarkaðsverðinu sem hefur verið á uppleið í kjölfar aukinna ferðalaga.

„Eins og fram hefur komið í skýringum erlendra fjölmiðla er megin ástæðan fyrir þessari þróun aukin eftirspurn. Samfélögin eru að vakna til lífsins eftir covid kreppuna. Þá eru ýmsir hnökrar sem má rekja til þess ástands sem varð í heimsfaraldrinum. Hlutirnir ganga ekki eins smurt fyrir sig og áður. Svo er þetta líka spurning um framboð og eftirspurn.“

Bitnar mest á landsbyggðinni

Að sögn Runólfs hefur álagning heldur dregist saman á síðustu misserum en þrátt fyrir það er hún enn umtalsvert hærri hér á landi en það sem viðgengst í nágrannalöndum okkar. Segir hann þá verðlagninguna lenda hvað verst á íbúum landsbyggðarinnar þar sem samkeppni er minni og aðgangur að lággjalda bensínstöðvum ekki til staðar. 

Telur hann athugavert að stóru stöðvarnar leyfi sér að selja bensínlítrann hátt í 40 krónum dýrara á sumum stöðvum. „Ég tel að það sé lag að lækka þetta álagningarhlutfall. Sérstaklega á þessum dýrari stöðum.“

mbl.is