Drógu 50 hvalshræ um borð með hjálp íbúa

Um 50 grindhvalshræ um borð í varðskipinu Þór.
Um 50 grindhvalshræ um borð í varðskipinu Þór. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Áhöfnin á varðskipinu Þór dró um fimmtíu grindhvalshræ úr fjörunni í Melavík á Ströndum um borð í varðskipið Þór í dag. Grindhvalina rak á land í Árneshreppi á Ströndum fyrr í mánuðinum. Hræin voru dregin með léttbátum varðskipsins og hífð með krana um borð í Þór.

Þetta segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Þar segir einnig að íbúar í nágrenninu hafi aðstoðað gæsluna við að draga hvalina nær flæðarmálinu með dráttarvél. Segir í tilkynningunni að það samvinna íbúa og gæslunnar hafi gengið afar vel.  

Varðskipið var komið í Melavík um klukkan tíu í morgun og áhöfnin hófst þegar handa við að draga hræin úr fjörunni þegar í þangað var komið.

Síðustu dýrin voru dregin úr fjörum við Árnes og litlu Ávík á sjötta tímanum í dag og mund varðskipið sigla með hræin út fyrir sjávarfallsstrauma og sleppa þeim í sjó djúpt norður af Langanesi.

Haft er eftir Páli Geirdal, skipherra varðskipsins Þórs, að vel hafi gengið. 

„Þetta er búið að ganga afskaplega vel og það sem stóð upp úr í dag var samvinna fólksins hér á svæðinu og áhafnarinnar á Þór. Hún var algjörlega til fyrirmyndar,“ er haft eftir Páli í tilkynningu Landhelgisgæslunnar. 

mbl.is