Friðrik krónprins til Íslands í dag

Friðrik krónprins er næsti erfingi krúnunnar.
Friðrik krónprins er næsti erfingi krúnunnar. Skjáskot/Kongehuset

Friðrik krónprins Danmerkur kemur til Íslands í dag ásamt Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, og sendinefnd tíu þarlendra fyrirtækja og samtaka. Markmið ferðarinnar er að styrkja samstarf og viðskiptatengsl Íslands og Danmerkur á sviði sjálfbærra orkulausna.

Heimsókn krónprinsins hefst með með kvöldverði honum til heiðurs á Bessastöðum í kvöld.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flytur ávarp við setningu fundar dansk-íslenskrar sendinefndar sem fer fram í Grósku hugmyndahúsi í fyrramálið. Krónprinsinn og fylgdarlið hans heimsækja einnig Hellisheiðarvirkjun og danska varðskipið HDMS Triton sem liggur við bryggju í Reykjavík auk þess að funda í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Kveðjuathöfn verður svo í danska sendiráðinu síðdegis á morgun. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Friðrik kemur hingað til lands. Hann og Mary eiginkona hans komu í opinbera heimsókn árið 2008.

Friðrik heldur af landi brott á fimmtudagsmorgun. Eftir verður utanríkisráðherrann Jeppe Kofod sem mun ásamt fulltrúum úr dönsku sendinefndinni sitja Arctic Circle-ráðstefnuna í Hörpu. Samkvæmt upplýsingum frá Ólafi Ragnari Grímssyni, stjórnarformanni Arctic Circle, mun Kofod flytja ræðu á opnunarþinginu og verður norðurslóðastefna danska konungsríkisins til umfjöllunar á ráðstefnunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert