Staðið vaktina í 35 ár

Faney Kim Du.
Faney Kim Du. mbl.is/Sigurður Bogi

„Störf í verslun eru fyrst og síðast þjónusta við fólk og mikilvægt að sinna öllum verkefnum með opinn huga. Mér finnst þetta alltaf jafn skemmtilegt og er sífellt að læra eitthvað nýtt,“ segir Fanney Kim Du, verslunarkona í Krónunni. Þar á bæ var því haldið til haga sl. fimmtudag, 7. október, að slétt 35 ár voru liðin frá því Fanney, sem er frá Víetnam, hóf störf í matvöruversluninni í JL-húsinu við Hringbraut í Reykjavík. Segja má að þar og þá hafi teningunum verið kastað því síðan hefur Fanney sinnt verslunarstörfum. Hún er mörgum kunn og á marga trygga viðskiptavini, eins og jafnan er með góða kaupmenn.

Frá Víetnam með stórum systkinahópi

Fanney starfaði lengi í Nóatúnsbúðunum – sem eru nú hluti af Krónunni. Þar starfar Fanney nú í höfuðstöðvum fyrirtækisins og hefur umsjón með ávöxtum og grænmeti. Hún sér um meðhöndlun varanna og gæðaeftirlit, framstillingu, merkingu og fræðslu; um vínber frá Kaliforníu, appelsínur frá Spáni og tómata austan úr Hrunamannahreppi. Þessa dagana koma graskerin sterk inn, en þau tilheyra hinni bandarísku hrekkjavöku í lok mánaðarins sem sífellt fleiri Íslendingar nota til að gera sér dagamun.

Það var árið 1983 sem Fanney fluttist hingað til lands frá Víetnam með foreldrum sínum og níu systkinum. Fjögur systkini hennar voru áður komin til Íslands; voru í stórum hópi flóttafólks sem hingað kom árið 1979 fyrir tilstilli Rauða krossins.

„Fjölskyldan festi rætur á Íslandi og framtíð okkar varð hér,“ segir Fanney. „Eftir skyldunámið langaði mig í iðnskóla en var of sein að skila inn umsókn. Varð því að fara á vinnumarkaðinn og fór til Gunnars Bjartmarz, verslunarstjóra í JL-húsinu, sem réð mig á staðnum. Fyrstu verkefnin voru að raða vörum í hillur. Fékk svo að sjá um mjólkurkælinn. Þetta gekk vel, verkefnum fjölgaði og eftir hálft ár var ég gerð að innkaupastjóra, þótt ég kynni ekkert í íslensku. En ég fékk tækifæri og boltinn fór að rúlla.“

Í um áratug var Fanney verslunarstjóri Nóatúns við Hringbraut. Seinna tók hún við búðinni í Austurveri við Háaleitisbraut í Reykjavík og var þar lengi. „Ég hef sinnt öllum þeim störfum í matvöruverslun sem unnin eru; verið á kassa og í kjötborði, séð um að velja inn nýjar vörur, ráða inn og stýra fólki og fleira. Þetta hefur verið mjög skemmtilegur tími sem ég er þakklát fyrir, “ segir Fanney.

Kaupmaður af lífi og sál

Alls starfa um 1.000 manns í verslunum Krónunnar, sem eru 24 talsins – auk snjallverslunar. Um fjórðungur starfsfólksins er af erlendum uppruna. „Við lifum í fjölbreyttu samfélagi sem endurspeglast í starfsmannahópi okkar. Mikilvægt er að hlúa vel að nýjum Íslendingum og að þeim séu gefin tækifæri til að ná árangri í íslensku atvinnulífi. Við höfum frábæra reynslu af starfsfólki sem hefur fjölbreyttan bakgrunn,“ segir Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar. Hún rómar störf Fanneyjar, vöruþekkingu og tengsl við starfsfólk og viðskiptavini. Eftir langt starf sem verslunarstjóri hafi hún öðrum betri tilfinningu fyrir því hverjar þarfir viðskiptavinanna séu. Hún sé á ferðinni alla daga milli verslana til að tryggja þekkingu, gæði og framboð af ferskustu vörum sem í boði eru hverju sinni. Hún sé kaupmaður af lífi og sál. Þá sé Fanney ómetanleg fyrirmynd því unga fólki sem byrjar starfsferil sinn í Krónunni – en sá hópur er afar stór.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert