„Þetta eru ekki vondir krakkar“

Birgir Örn hefur sinnt forvarnastarfi í Hafnarfirði og Garðabæ. Hann …
Birgir Örn hefur sinnt forvarnastarfi í Hafnarfirði og Garðabæ. Hann sér meðal annars um að tengja saman aðila og samræma aðgerðir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þegar foreldrar fá vitneskju um að barn þeirra hafi beitt annað barn ofbeldi er algengt að þeir afneiti vandamálinu í fyrstu og jafnvel neiti samstarfi við sérfræðinga og fagaðila. Allur gangur er svo á því hvort þeir sjái að sér eftir samtal eða ekki. Þetta segir Birgir Örn Guðjónsson, varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Hann hefur meðal annars sinnt forvarnastarfi í Hafnarfirði og Garðabæ, en líkt og mbl.is hefur greint frá hefur ofbeldi meðal barna verið að aukast á svæðinu frá því síðsumars. Það staðfesta bæði lögregla og barnavernd. Sérstaklega hefur orðið vart við fjölgun mála þar sem nokkrir gerendur taka einn fyrir. Myndböndum af árásunum er svo gjarnan dreift á samfélagsmiðlum.

Forvarnastarfið snýst að miklu leyti um að tengja aðila saman til samstarfs og samræma aðgerðir, en að sögn Birgis eru foreldrar mikilvægur hlekkur í því samstarfi. Afneitun þeirra kemur sér því illa.

„Það er oft mjög erfitt að tala fólk til. Þetta getur því verið erfitt. Það þarf einhvern veginn að ná til krakkanna, fá þau til að taka ekki þátt og átta sig á að ef þau fylgjast með og láta ekki vita þá eru þau á óbeint  þátttakendur. Líka benda á að það er ekki slæmt að segja frá. Þetta er eitthvað sem enginn vill lenda í. Reyna að ná þeirri hugsun hjá krökkunum. Og að dreifa ekki myndböndum, hvað það skiptir miklu máli,“ segir Birgir. 

Eru að reyna að ná einhverjum status

Í einhverjum þeirra mála sem komið hafa upp í Hafnarfirði og Garðabæ í haust eru gerendur mjög ung börn, allt niður í ellefu ára, sem beita grófu ofbeldi. „Manni finnst það hálfótrúlegt,“ segir hann, en þar liggur yfirleitt mikil vanlíðan að baki.

„Upp til hópa eru þeir, sem ganga hvað harðast fram í að beita ofbeldi, krakkar sem eru að reyna að ná einhverjum status. Þetta eru yfirleitt krakkar sem líður illa og eru að reyna að upphefja sjálfa sig. Það þarf að nálgast þetta á þann hátt. Þetta eru ekki vondir krakkar, að sjálfsögðu ekki. Það þarf að nálgast þau og byggja upp, grípa þau á þessum tíma. Það eru forvarnir. Að grípa inn í á þeim tíma sem það er hægt, þegar leirinn er algjörlega ómótaður, og ná að móta einstaklinga á þessum tímapunkti.“

Mikilvægt er að börnin átti sig á alvarleika málsins án …
Mikilvægt er að börnin átti sig á alvarleika málsins án þess að upplifa sig sem glæpamenn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Birgir segir það úrelt fyrirkomulag í forvörnum að einn lögreglumaður standi og prediki fyrir framan hóp barna og unglinga. Aðrar leiðir skili betri árangri.

„Þetta snýst meira það sem ég hef verið að gera, að finna út hvar vandamálið er. Er þetta ákveðið skólahverfi og fara þá ofan í það, finna út hvaða hópar þetta eru og fara inn í hópana. Finna út hverjir eru líklegastir í staðinn fyrir tala ofan í alla. Því flestir unglingar eru alveg frábærir. Þetta snýst meira um að sjá hvar við getum nýtt okkar vinnu betur og það fæst með auknu samstarfi.“

Eiga ekki að upplifa sig sem glæpamenn

Lögreglan er fyrsti snertipunktur í mörgum þessara ofbeldismála en börn undir 15 ára eru ósakhæf og því fara málin strax í annan farveg. „Ég hef verið að tengja þessa punkta saman; barnavernd, skólana og félagsmiðstöðvar í þeim tilgangi að ná til þessara krakka og sjá til þess aðilar séu að stíga saman dansinn og takast á við þetta saman. Samræma aðgerðir svo þeir sem eru hæfastir til að takast á við málin séu að gera það. Svo þegar á hólminn er komið þá skipta foreldrarnir mjög miklu máli og ef þeir eru ekki til samstarfs þá er rosa erfitt að vinna í þessu og það er eitthvað sem margir eru að lenda í núna. Foreldrar fara í afneitun og segja sitt barn fórnarlamb. Það má alveg vera, en engu að síður þá þarf að stíga inn í og aðstoða.“

í Hafnarfirði er einnig í boði úrræði sem kallast Brúin, en Birgir segir það fyrsta stigs inngrip þar sem hægt er að grípa börn áður en mál þeirra lenda á borði barnaverndar. Markmið Brúarinnar er að samþætta þjónustu bæjarins og auka lífsgæði barna, unglinga og fjölskyldna þeirra.

„Svo hef ég sem lögreglumaður verið að koma inn í viðtöl bæði til hópa og einstaklinga til að gefa þessu vægi og spjalla. Ég hef líka verið að gera það með barnavernd. Við höfum verið að vinna þetta saman í þeim tilgangi að hjálpa krökkunum, að byggja þau upp, ekki til að þau upplifi sig sem einhverja glæpamenn. Samt þannig að þau átti sig á alvarleika málsins. Við erum að grípa þessi mál og viljum fá að vita af þessum málum. Oft eru þetta sömu einstaklingar og það er svo mikilvægt að þeir fái þau skilaboð að þessi hegðun er ekki boðleg og er slæm fyrir alla.“

Birgir segir þessa aðferðafræði, að tengja saman aðila og samþætta aðgerðir, byggja á sömu hugmynd og lagafrumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um „samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna“. Þannig reyni á samtakamátt alls samfélagsins. 

Telur „fjölskyldurof“ hafa átt sér stað

Birgir telur að aukna ofbeldishegðun megi meðal annars rekja til áhrifa af Covid og þeirrar einangrunar sem skapaðist víða þegar faraldurinn stóð sem hæst. Þó sé fleira sem komi til. Vandamálið einskorðist heldur ekki við Hafnarfjörð og Garðabæ.

„Ég held að þetta sé pottþétt á fleiri svæðum þótt þessi tilvik hafi verið að koma upp hér. Við vorum að kljást við þetta fyrir einu og hálfu til tveimur árum síðan. Þá fórum við í herferð því þessi myndbönd voru að ganga mjög mikið. En ég er alveg pínu smeykur núna þegar krakkar eru að koma undan þessu rosalega skrýtna tímabili, þessu Covid-tímabili. Það er spenna í loftinu og margt í gangi. Ég tengi þetta við að það eru margir að reyna að finna sig, það er ákveðin vanlíðan og svo margt sem spilar inn í. Þess vegna skiptir rosalegu máli að foreldrar, skólasamfélagið og félagsmiðstöðvar séu meðvituð um þetta.“

Þá getur það verið hættulegt þegar barn eða unglingur einangrar sig frá fjölskyldunni og lifir lífinu að miklu leyti í gegnum samfélagsmiðla. „Ég held að það hafi orðið ákveðið fjölskyldurof hjá unglingum. Foreldrar vita oft rosalega lítið hvað unglingarnir eru að gera. Unglingurinn er bara með sitt samfélag í kringum sig inni í herbergi, í gegnum símann sinn. Kemur hugsanlega fram til að borða en fer svo aftur inn í herbergi. Þetta er rosalega furðulegur tími og við þurfum að vera meðvituð.“

Þá hefur Birgir fundið fyrir aukningu á neyslu efnisins spice hjá ungu fólki en hann tengir það beint við vanlíðan og að ungmennin séu að reyna að finna sig í hópi. „Það hefur kannski verið erfitt á heimilum og krökkum líður illa. Þetta springur út á svo margan hátt.“

„Þetta er allt kóperað“

Líkt og fram hefur komið er í einhverjum tilfellum um mjög ung börn að ræða sem beita alvarlegu ofbeldi. Þá má ítrekað sjá svipaðar aðferðir og orðnotkun og leiða má líkum að því að verið sé að herma eftir einhverju sem þykir flott eða spennandi. Ólíklegt sé að börnin finni upp á þessu sjálf.

Birgir segir mikilvægt að finna út hvar vandamálið er og …
Birgir segir mikilvægt að finna út hvar vandamálið er og hverjir eru líklegastir til að beita ofbeldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það hafa verið myndbönd að ganga, eins og þessi íslensku slagsmálamyndbönd. Þessir krakkar eru komnir til dæmis á Snapchat og hafa væntanlega verið að fá myndböndin til sín. Þetta er ekki fjarlægt eins og í einhverri Hollywood. Þetta er komið miklu nær og er kannski að gerast á skólalóð í nágrenninu. Þá eru miklu meiri líkur á að þau sjái þetta og hugsi: Þetta er eitthvað töff, þetta er allt í lagi, það verður enginn skaði af þessu. Spörkum í hann eða látum hann kyssa skóna okkar, eða eitthvað svona. Og allt þetta tal, þetta er allt kóperað. Þetta er ákveðin niðurlæging, láta gefa frá sér hljóð, láta bíta gras, láta kyssa skóna. Maður sér þetta aftur og aftur í myndböndum. Þetta er bara eitthvað sem krakkar læra á því sem er að ganga.“

Birgir segir mikilvægt að þau sem eldri eru átti sig á sinni ábyrgð. Ef þau dreifa ofbeldismyndböndum á samfélagsmiðlum aukast líkurnar á til dæmis yngri systkini komist í efnið eða jafnvel verði fyrir ofbeldinu.

Ekki fara í vörn, skamma eða refsa

Eitt það mikilvægasta í forvarnarstarfinu, að sögn Birgis, er að foreldrar tali við börn sín og gefi þeim færi á að segja frá án þess að fara í vörn, skamma eða refsa.

„Að tala er númer eitt, tvö og þrjú. Það er 100 prósent víst að krakkarnir vita meira en foreldrarnir vilja vita. Þau vita hvað er í gangi. Foreldrar eru oft hræddir við að fara inn í eitthvað sem þeir halda að þau viti ekki. En þetta snýst um að eiga samtalið og gefa þessa punkta; ekki taka þátt, ef eitthvað er í gangi þá ganga í burtu, ekki senda myndbönd áfram og láta vita.“

Hann segir fyrstu viðbrögð foreldra geta skipt sköpum varðandi það hvort börnin leiti til þeirra aftur. „Verið undirbúin ef krakkar koma og spjalla að fyrra bragði, hvernig þið ætlið að taka á því. Alls ekki fara í vörn. Maður vill að krakkinn sé óhræddur við að koma heim og óhræddur við að tala. Heimilið á að vera griðastaður, alltaf.“

Geta verið í beinni allan sólahringinn

Spurður að því hvort hann hafi áhyggur af þróuninni sem hefur átt sér stað síðustu mánuði, segir Birgir: „Ég hef vissar áhyggjur af því að þetta sé alltaf að fara neðar og neðar en ég held að það skipti aðalmáli að við séum vakandi. Við erum í svo nýju umhverfi. Við erum með kynslóð af krökkum sem getur verið í beinni útsendingu allan sólarhringinn. Þau geta jafnvel orðið stórstjörnur á því að vera í beinni útsendingu allan sólarhringinn. Það má í raun segja að hver einasti unglingur sé í hæfileikaprufum hvern einasta dag og að reyna að finna út hvað hann á að gera. Við þurfum bara að vera meðvituð um það til að geta tæklað þetta. Það er lykillinn, að vinna þetta, ekki loka augunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert