Víðtæk truflun vegna mannlegra mistaka

Mannleg mistök sem gerð voru við hefðbundinn rekstur á farsímakerfi …
Mannleg mistök sem gerð voru við hefðbundinn rekstur á farsímakerfi Símans ollu víðtækri truflun á símakerfinu rétt fyrir hádegi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mannleg mistök voru gerð við hefðbundinn rekstur farsímakerfi Símans sem ollu víðtækri truflun á símakerfinu rétt fyrir hádegi í dag en ekki var hægt að hringja í rúman hálftíma vegna mistakanna. Þetta staðfestir Guðmundur Jóhansson, samskiptastjóri Símans í samtali við mbl.is.

„Það var bara verið að gera litla, einfalda uppfærslu sem eru gerðar oft í viku en þarna kom mannshöndin að og það klikkaði eitthvað.“

Þegar truflun af þessu tagi kemur upp er fyrsta skref að koma kerfinu í lag og svo að finna út úr því hvað fór úrskeiðis, að sögn Guðmundar.

Guðmundur Jóhannsson, samskiptastjóri Símans.
Guðmundur Jóhannsson, samskiptastjóri Símans. Ljósmynd/Aðsend

„Það getur þó oft tekið svolítinn tíma að finna út nákvæmlega hvar truflunin liggur því farsímakerfið er löng keðja af mismunandi kerfum.“

Viðgerð á kerfinu er þó lokið og ætti farsímakerfið því að vera komið aftur í lag.

Inntur eftir því segist Guðmundur ekki vita nákvæmlega í hverju mistökin fólust enda sé hann sjálfur ekki fjarskiptaverkfræðingur.

„Ég ætla ekki að henda neinum fyrir þá lest. Mér þykir vænt um blessaðan tæknimanninn.“

mbl.is