Hjónavígslum fækkaði um 14% í fyrra

mbl.is

Hjónavígslum hér á landi fækkaði í fyrra um tæp 14% frá árinu á undan samkvæmt nýju yfirliti Hagstofu Íslands yfir hjónavígslur og skilnaði. Bent er á í umfjöllun Hagstofunnar að ekki sé þó hægt að draga þá ályktun að heimsfaraldur kórónuveirunnar sé skýringin á þessari fækkun þar sem fjöldi hjóavígslna hafi verið mjög breytilegur á milli ára.

Hjónavígslur voru alls 1.831 á seinasta ári eða fimm á hverja eitt þúsund íbúa, en þær voru töluvert fleiri eða 2.075 á árinu 2019, eða 5,8 á hverja þúsund íbúa.

Sjá má á yfirliti Hagstofunnar að borgaralegum vígslum hefur fjölgað mikið á umliðnum árum. Um seinustu aldamót voru þær 677 talsins á einu ári eða 14,6% af öllum hjónavígslum á landinu en þær voru 727 á árinu 2019 og 677 í fyrra eða ríflega þriðjungur allra hjónavígslna.

Mynd/mbl.is

Kirkjulegum vígslum hefur á hinn bóginn fækkað nokkuð. Þær voru 1.200 á árinu 2001 en tveimur áratugum síðar voru þær 1.154.

„Tíðasti aldur, meðalaldur og miðaldur við hjúskap hefur hækkað hjá bæði konum og körlum en árið 2001 var tíðasti aldur brúðguma 27 ára og brúða 28 ára. Árið 2020 var meðalaldur brúðguma 32 ár og brúða 30 ár. Meðalaldur karla við upphaf hjúskapar er venjulega um tveimur árum hærri en kvenna,“ segir í umfjöllun Hagstofunnar.

Fram kemur að þó að lögskilnuðum hafi fjölgað úr 545 á aldamótaárinu í 687 í fyrra, er fjöldi þeirra stöðugur yfir tímabilið þegar litið er á lögskilnaði á hverja þúsund íbúa eða 1,9 í fyrra á þúsund íbúa.

Aldur þeirra sem skilja hefur hækkað nokkuð á umliðnum árum. Fram kemur að á síðustu fimm árum hafa flestir þeirra sem skilja verið á aldrinum 35 til 44 ára. Sjá má af tölum Hagstofunnar að aldur þeirra sem skilja hefur farið hækkandi á umliðnum árum. Þannig var t.a.m. meðalaldur karla við lögskilnað 41,9 ár um seinustu aldamót en var kominn upp í 46,1 ár í fyrra. Meðalaldur kvenna við lögskilnað var 39,3 ár árið 2001 en hafði hækkað í 43,1 ár í fyrra. Sem fyrr segir hefur aldur hjónaefna við hjúskap hækkað á umliðnum árum og algengasta lengd hjónabands sem endar með skilnaði virðist því ekki hafa breyst í sama mæli.

Hjúskapartíðni hækkaði hér

Í samanburði við önnur lönd kemur fram að annars staðar á Norðurlöndunum var hjúskapartíðni hæst í Danmörku eða 5,3 á hverja þúsund íbúa árið 2019. Frá 2010 til 2019 lækkaði hjúskapartíðni í Noregi, Finnlandi og Svíþjóð en hækkaði yfir sama tíma á Íslandi og var 5,5 á hverja þúsund íbúa hér frá 2016 til 2020. Lægsta hjúskapartíðni er í Finnlandi og Noregi eða um fjórar hjónavígslur á hverja þúsund íbúa, að því er fram kemur í umfjöllun Hagstofunnar. omfr@mbl.is

Vígslur og skilnaðir

» Borgaralegar hjónavígslur voru 11,9% af öllum hjónavígslum á árinu 1990 en þær voru 37% á seinasta ári.
» Kirkjulegar hjónavígslur voru 83% allra hjónavígslna árið 1980 en 63% í fyrra.
» Tíðni skilnaða er svipuð í nágrannalöndunum og á Íslandi. Hún var 1,8 á þúsund íbúa í Danmörku og 1,9 í Noregi árið 2019 en tveir lögskilnaðir á þúsund íbúa á Íslandi sama ár.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »