Ísing gæti myndast á vegum

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Bleyta er á vegum um norðanvert landið og kólnar með norðanátt. Ísing gæti því myndast víða á vegum, einnig á láglendi í kvöld og nótt, einkum norðanlands og norðaustanlands, en þó líka á Vestfjörðum, samkvæmt Einari Sveinbjörnssyni veðurfræðingi. Sunnan til eru minni líkur á frosti og þar nær líka að þorna á vegum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á föstudag:

Vestlæg átt 8-15 m/s, en lægir með morgninum. Bjartviðri SA-lands, annars víða skúrir eða slydduél. Hiti 1 til 7 stig, en kólnar síðdegis.

Á laugardag:
Norðaustan og austan 5-13, en hvessir syðst á landinu eftir hádegi. Rigning eða slydda með köflum og hiti 2 til 6 stig, en dálítil snjókoma um landið N-vert með hita í kringum frostmark.

Á sunnudag:
Gengur í hvassa norðaustanátt með slyddu eða snjókomu, en rigningu syðst. Úrkomuminna N-lands fram á kvöld. Hiti breytist lítið.

Á mánudag:
Ákveðin norðaustanátt og slydda eða snjókoma, en hægari vindur og rigning S- og A-lands. Hiti 0 til 8 stig.

Á þriðjudag:
Norðlæg átt og snjókoma, en þurrt um landið S-vert. Kólnandi veður.

Veður á mbl.is

mbl.is