Jarðhræringar mælast í Ljósufjöllum

Litið til Ljósufjalla á Snæfellsnesi.
Litið til Ljósufjalla á Snæfellsnesi. mbl.is/Sigurður Bogi

Ekki er brýn ástæða til að þétta net jarðskjálftamæla í kringum Ljósufjöll á Snæfellsnesi, að mati Kristínar Vogjörð, hópstjóra jarðar og eldgosa hjá Veðurstofu Íslands. Um 55 jarðskjálftar hafa mælst í Ljósufjöllum það sem af er þessari öld og þar áður kom lítil hrina sumarið 1992. Nokkuð lifnaði yfir virkninni í Ljósufjöllum í sumar, en 40 þessara skjálfta hafa mælst síðan í júní og kom skjálfti af stærð 3,0 stig í júlí.

„Mér finnst eins líklegt að þessar hræringar stafi frá hreyfingum á sprungum. Það er ekkert sem segir að þetta sé endilega tengt eldvirkni. Við fáum svona virkni reglulega í ýmsum eldstöðvum, eins og t.d. Esjufjöllum,“ segir Kristín. Hún telur að ekki sé yfirvofandi bráð hætta á Snæfellsnesi af völdum jarðskjálfta eða jarðelda.

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur benti á það fyrir áratug að þörf væri á betri jarðskjálftavöktun á Snæfellsnesi. Snæfellsjökull er þekkt eldstöð og gaus síðast fyrir nær 1.800 árum.

Óskað eftir fleiri jarðskjálftamælum

Matteo Lupi, þá jarðeðlisfræðingur við háskólann í Bonn í Þýskalandi, setti upp fimm jarðskjálftamæla á Snæfellsnesi sumarið 2011. Hann kom svo aftur og gerði meiri jarðskjálftamælingar á svæðinu. Kristín segir að Veðurstofan hafi farið yfir gögn úr mælingum Lupis sem sýndu að sumarið 2011 voru skráðir sextán litlir skjálftar við Snæfellsjökul. Hún segir að litlir skjálftar á borð við þá geti mælst í mörgum öðrum eldstöðvum.

Kristín segir að Sara Barsotti, sem leiðir eldfjallaeftirlit hjá Veðurstofunni, hafi óskað eftir að minnsta kosti einum jarðskjálftamæli við Snæfellsjökul til að sjá strax ef eitthvað gerist þar. Þá var næsti jarðskjálftamælir á Ásbjarnarstöðum í Borgarfirði, sem er um 110 km frá Snæfellsjökli. Þrír jarðskjálftamælar voru settir upp tímabundið við Snæfellsjökul í fyrrahaust. Einn pínulítill jarðskjálfti hefur mælst á svæðinu síðan þá því við nánari skoðun á mældum atburðum hefur komið í ljós að þeir hafa líklega stafað af sprengingum við jarðvegsframkvæmdir. Hún segir að til að vakta jarðhræringar á Snæfellsnesi þyrfti a.m.k. þrjá jarðskjálftamæla út eftir nesinu til að geta greint og staðsett litla jarðskjálfta. Þetta sé því talsvert umfangsmikið verkefni. Skjálftamælarnir við Snæfellsjökul eru um 90 km frá Ljósufjöllum.

„Ef við hjá Veðurstofunni ættum nógan pening þá ætti að vera jarðskjálftamælir staðsettur við Snæfellsjökul. En á meðan við erum með kviku á litlu dýpi annars staðar á landinu þurfum við að verja því fé sem við höfum til að sinna þeim svæðum vel, sérstaklega ef þau eru nálægt byggð. Það virðist vera kvika á um 6 kílómetra dýpi nálægt Keili. Í Öskju eru vísbendingar um kviku á 2-3 kílómetra dýpi. Það fer öll okkar orka nú í að setja upp mæla og vakta þessa staði svo við vitum sem best hvað þar er að gerast,“ segir Kristín.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »