Lamb ræðir sértæk áhrif stríðs á konur

Sértæk áhrif stríðs á konur, beiting kynferðisofbeldis og nauðgana sem vopn í stríðsátökum og afleiðingar þeirra á líf kvenna verða til umfjöllunar á málþingi UN Women á morgun.

Þetta eru jafnframt helstu efnistök bókarinnar: Líkami okkar, þeirra vígvöllur (e. Our Bodies, their Battlefield), eftir Christinu Lamb.

Lamb er margverðlaunaður rithöfundur og einnig fréttastjóri erlendra frétta hjá miðlinum The Sunday Times. Hún er stödd á Íslandi og mun ræða inntak bókar sinnar á málþinginu  sem haldið verður í Veröld - húsi Vigdísar milli klukkan 16:30 og 18:00 á morgun.

Pallborðsumræður

Að loknu erindi hennar munu eftirfarandi sérfræðingar taka þátt í pallborðsumræðum. Salvator Nkurunziza, framkvæmdastjóri svæðisskrifstofu UN Women í Mið-Afríkulýðveldinu, Erna Huld Ibrahimsdóttir, þýðandi, túlkur og kynjafræðingur og Íris Björg Kristjánsdóttir, sérfræðingur í friði og öryggis- og mannúðarmálum hjá svæðisskrifstofu UN Women í Evrópu og Mið-Asíu

Fanney Birna Jónsdóttir, fjölmiðlakona, stýrir umræðunum sem munu koma til með að snúast um hvort nauðgunum sé beitt markvisst í hernaði, hvers vegna það sé svo öflugt vopn í stríði og afleiðingar þess á líf kvenna og samfélög þeirra.

mbl.is