Stofna fréttamiðil í eigu starfsmanna

Kristjón Kormákur Guðjónsson, ritstjóri 24.is.
Kristjón Kormákur Guðjónsson, ritstjóri 24.is. Ljósmynd/Landspítalinn

24.is er nýr fréttamiðill sem opnað hefur fréttaveitu sína á vefnum undir vefslóðinni 24.is. Ritstjóri miðilsins er Kristjón Kormákur Guðjónsson, sem ritstýrt hefur Pressunni, DV, Hringbraut og vef Fréttablaðsins.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá 24.is.

Þar segir að hinn nýi miðill sé frjáls og óháður og alfarið í eigu starfsmanna hans. Stofnendur eru auk Kristjáns þau Tómas Valgeirsson, Sunna Rós Víðisdóttir og Guðbjarni Traustason, eins og segir í fréttatilkynningunni.

„Við birtum ekki allar fréttir en við birtum þínar fréttir. Á 24.is verðum við gagnrýnin og beitt en leggjum líka áherslu á hið jákvæða og mannlega um allt land. Svo verðum rödd þeirra sem eru of brotnir til að tala eða misstu trúna á réttlæti og sanngirni,“ er haft eftir Kristjóni Kormáki, ritstjóra 24.is.

Fréttir munu birtast á vef miðilsins 24.is og í vetur er stefnt að útgáfu prentaðs blaðs, sem fyrst um sinn verður gefið út mánaðarlega og dreift um allt land. Þá er stefnt að upptöku hlaðvarps, bæði í hljóð og mynd, í höfuðstöðvum miðilsins í Síðumúla 28.

Eins og fyrr segir er Kristjón Kormákur ritstjóri 24.is, Sunna Rós Víðisdóttir er stjórnarformaður hans, Guðbjarni Traustason er framkvæmdastjóri og Tómas Valgeirsson er frétta- og tæknistjóri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert