Þak á greiðsluþátttöku „blekkingarleikur“

Talsmenn ÖBÍ segja þak á greiðsluþátttöku sjúklinga nokkurs konar blekkingarleik.
Talsmenn ÖBÍ segja þak á greiðsluþátttöku sjúklinga nokkurs konar blekkingarleik. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Könnun sem var unnin fyrir málefnahóp Öryrkjabandalags Íslands um heilbrigðismál hefur leitt í ljós að með innheimtu komugjalda hafi fagaðilar veitt gríðarlegar fjárhæðir upp úr vösum almennings, á meðan ríkið sparar, að því er greint frá í tilkynningu frá ÖBÍ.

Í tilkynningunni segir að samkvæmt stjórnarsáttmála fráfarandi ríkisstjórnar hafi ætlunin verið að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og gera það gagnsærra og skilvirkara.

Greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu er ætlað að tryggja að hámarkskostnaður sjúklinga verði ekki hærri en 27.475 á ári fyrir almenna notendur en 18.317 kr. fyrir aldraða og öryrkja.

Um þetta hafi ríkt sátt sem byggði á samningum milli Sjúkratrygginga Íslands og fagstétta. 

Síðan sérfræðilæknar og sjúkraþjálfarar sögðu upp samningum við SÍ hafi þeir þó innheimt komugjöld milliliðalust af sjúklingum til að dekka það sem þeim finnst upp á vanta. Í raun sé því þak á greiðsluþáttöku sjúklinga „nokkurs konar blekkingarleikur“.

„Almenningur greiði þannig með þessum stéttum um 1,7 milljarða á ári, til viðbótar greiðslum frá Sjúkratryggingum.“

Lögmæti sérstaks komugjalds dregið í efa

Við skoðun á svokölluðu sérstöku komugjaldi hafi einnig vaknað sú spurning hvort það standist lög að ríkisvaldið heimili einkaðila að innheimta óskilgreint sérstakt komugjald af sjúklingum sem eru í eðli sínu eins og hver annar veltuskattur. Skipti þá ekki máli hvað slíkt gjald er kallað þ.e. sérstakt komugjald til læknis fyrir óskilgreinda þjónustu eða þá veltuskattur/gjald, að því er greint frá í skýrslu sem unnin var upp úr niðurstöðum ofangreindrar könnunar.

„Niðurstaða um lögmæti gjaldsins fæst ekki nema fyrir dómstólum. Í ljósi þeirra upphæða sem hér er verið að fjalla um hlýtur það að vera mikilvægt að úr þessu verið skorið. Hvatinn til þess að hækka þetta gjald að óbreyttu er augljóslega auðsær,“ segir í skýrslunni.

Skýrslan var kynnt á blaðamannafundi í húsnæði ÖBÍ, Sigtúni 42 klukkan tíu í dag. Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ og Emil Thoroddsen, formaður málefnahóps ÖBÍ um heilbrigðismál, kynntu skýrsluna og sátu fyrir svörum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert