Verði aðal uppbyggingasvæðið næstu ár

Nýja hverfið vestan Borgarbrautar á Akureyri hefur ekki enn fengið …
Nýja hverfið vestan Borgarbrautar á Akureyri hefur ekki enn fengið endanlegt nafn. Gert er ráð fyrir 970 íbúðum á svæðinu.

Nýja hverfið sem reisa á vestan Borgarbrautar á Akureyri á komandi árum hefur ekki enn fengið nafn, en leitað er að góðum hugmyndum. Búist er við því að það muni byggjast upp á 3-6 árum, en til viðbótar er gert ráð fyrir frekari byggð norður af þessu fyrirhugaða hverfi.

Pétur Ingi Haraldsson, sviðsstjóri skipulagssviðs Akureyrarbæjar, segir í samtali við mbl.is að vinnuheiti hverfisins hafi verið Kollugerðishagi, en að uppi séu hugmyndir að breyta því. Eins og greint var frá í síðustu viku er gert ráð fyrir allt að 970 íbúðum í hverfinu fyrir 1.900-2.300 manns.

Anni eftirspurn næstu ára

Spurður út í þennan fjölda miðað við núverandi íbúafjölda Akureyrar sem er um 19.000 segir Pétur að árleg íbúðaþörf hafi undanfarna áratugi verið 120-150 íbúðir. Það sé reyndar nokkuð sveiflukennt milli ára, en meðaltalið sé nálægt þessari tölu. Þannig hafi verið mikil eftirspurn og fjölgun íbúa milli 2000 og 2010, en svo hafi hægt mikið á fjölguninni. Á síðustu árum hafi aftur á móti fjölgun íbúa tekið við sér á ný. Segir Pétur að hverfið gæti því vel annað eftirspurn komandi ára, en til viðbótar er stefnt að því að byggja einnig upp í miðbænum og á Oddeyrinni.

Yfirlitsmynd yfir nýja hverfið vestan Borgarbrautar. Skipulagsvinna stendur nú yfir.
Yfirlitsmynd yfir nýja hverfið vestan Borgarbrautar. Skipulagsvinna stendur nú yfir.

„Það er búið að úthluta síðustu lóðunum í Hagahverfi,“ segir Pétur og bætir við að nýlega hafi nokkrar lóðir verið auglýstar í Holtahverfi. Það sé því vilji bæjaryfirvalda að klára skipulagsvinnu nokkuð hratt í þessu nýja hverfi, en svo verði að ráðast hversu hratt verði farið í uppbyggingu.

Jafnvel hægt að sjá fyrstu framkvæmdir 2023

Í gær fór fram kynning bæði fyrir íbúa og byggingaraðila á deiliskipulagsdrögum hverfisins. Pétur segir að enn sé tækifæri fyrir alla að koma með athugasemdir og skoða breytingar. Segir hann að horft sé til þess að klára skipulagsvinnuna á næsta ári og að jafnvel væri hægt að sjá fyrstu framkvæmdir árið 2023 gangi allt að óskum. Hann tekur þó fram að enn séu allskonar óvissuþættir eins og alltaf með jafn stór verkefni og þetta.

Pétur vekur athygli á því við blaðamann að það sé ekki bara íbúafjölgun sem ráði því að fjölga þurfi íbúðum í bænum. „Áður var talað um 2,6 til 2,7 íbúa í hverri íbúð, en við erum að gera ráð fyrir að það hlutfall lækki niður í 2,3 íbúa á komandi árum,“ segir hann. Þetta helgist meðal annars af færri börnum og að fleiri ákveði að búa einir.

Aðeins bakkað með fjölda fjölbýla

Talsverður munur er á samsetningu hverfa á Akureyri þegar kemur að hlutfalli fjölbýla og sérbýla. Í eldri hverfum eru fjölbýlishús um 55%, en í Naustahverfinu var ákveðið að fara upp í 70%. Í Hagahverfinu var þetta hlutfall hækkað enn meira upp í 90%, en núna segir Pétur að bakka eigi aðeins og horft sé til þess að fjöldi íbúa í fjölbýli verði um 70% í hverfinu.

Samkvæmt aðalskipulagi er gert ráð fyrir frekari uppbyggingu norðan af …
Samkvæmt aðalskipulagi er gert ráð fyrir frekari uppbyggingu norðan af nýja hverfinu (fjær á myndinni).

Nýja hverfið verður við hlið bæði Giljahverfis og Síðuhverfis. Segir Pétur að í raun sé nýja hverfið mótað að miklu leyti eftir Giljahverfinu og í stað þess að vera með gegnumkeyrslu sé það byggt upp með botnlöngum.

Dýpra á fast við Borgarbrautina

Eins og greint var frá í fyrri frétt mbl.is um uppbyggingaráformin er gert ráð fyrir að fjölbýlishús verði næst Borgarbraut, en ofar verði sérbýli. Gert er ráð fyrir að hæstu blokkirnar verði allt að 9 hæða. Pétur segir að varðandi staðsetninguna sé meðal annars horft til þess að jarðvegsaðstæður við Borgarbrautina henti betur til að hafa fjölbýlishús með bílakjallara. Þar sé dýpra á fast og því ekki hentugt að byggja til dæmis einbýlishús sem séu ekki með kjallara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert