Lesley Ann Page sæmd heiðursdoktorsnafnbót

Lesley Ann Page verður sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.
Lesley Ann Page verður sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Lesley Ann Page, ljósmóðir og prófessor við Thames Valley University, verður sæmd heiðursdoktorsnafnbót við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands á morgun. 

Þetta kemur fram í tilkynningu Háskóla Íslands.

Lesley á þátt í flutningi ljósmóðurnáms í Háskóla Íslands en hún hefur lagt mikið af mörkum við klíníska og akademíska uppbyggingu ljósmóðurfræðinnar á alþjóðavísu, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Hefur hún meðal annars sinnt stjórnunarstörfum í Bretlandi, leitt kennslu, skrifað bækur, stundað rannsóknir og birt fjölda fræðigreina, skýrslur og kafla í grundvallaritum á fræðasviðinu.

Í kjölfar þess að hafa lokið hjúkrunar- og ljósmóðurprófi árin 1965 og 1966, kláraði hún BA- og meistaragráðu frá Háskólanum í Edinborg. Doktorsprófið kom síðan árið 2004 frá University of Technology í Sydney Ástralíu. 

Hlaut æðstu orðu breska heimsveldisins

Lesley er fyrst til að gegna prófessorsstöðu í ljósmæðurfræði í Bretlandi, en það gerðist árið 1994 við Thames Valley University í London. Þá hefur hún einnig setið sem formaður breska ljósmæðrafélagsins og hlotið margar viðurkenningar á starfsferli sínum, þar á meðal æðstu orðu breska heimsveldisins fyrir ljósmóðurstörf. 

„Það eru fyrst og fremst tveir þættir í störfum Lesley Ann Page sem styðja þá ákvörðun að veita henni heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands.  Annars vegar er það aðkoma hennar sem gestaprófessor að þróun námsskrár í ljósmóðurfræði þegar nám í námið var flutt til Háskóla Íslands og hins vegar óumdeilt framlag hennar til rannsókna í ljósmóðurfræði á alþjóðavísu en það hefur m.a. verið hvati að uppbyggingu og þróun rannsókna í ljósmóðurfræði hér á landi,“ segir í tilkynningunni.

Athöfnin fer fram klukkan 16 á morgun í Hátíðarsal skólans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert