„Maður er bara alveg búinn“

Loki og Rúnar, sá síðarnefndi nýkominn úr lyfjameðferð og öllum …
Loki og Rúnar, sá síðarnefndi nýkominn úr lyfjameðferð og öllum lokið. Rúnar segir slíkt ástand dæmigert eftir lyfjameðferðirnar sem taka verulegan toll af skrokknum. Ljósmynd/Aðsend

„Ég greindist fyrst í lok febrúar í fyrra,“ segir Rúnar Hrafn Sigmundsson, Húsvíkingur, sem búsettur er í Sandnes í Rogaland-fylki á vesturströnd Noregs og heyr nú skarpa snerru við beinkrabbamein (gr. osteosarcoma) í lyfjameðferð númer tvö á Haukeland-sjúkrahúsinu í Bergen, eða eins og hann lýsti með kraftmiklum stíl Norðlendingsins á Facebook í september: „Ný umferð með lyfjameðferð, náði víst ekki að drepa þennan andskota síðast.“

„Þetta byrjaði nú bara með verkjum í hnjám og einhverjum bólgum,“ segir Rúnar, sem hefur um árabil starfað hjá Atea, leiðandi stórfyrirtæki á sviði hljóð- og myndlausna í tengslum við fjarfundabúnað fyrirtækja og annað á þeim vettvangi, en fyrirtækið starfar í um 80 borgum og bæjum á öllum Norðurlöndunum auk Eystrasaltslandanna. Skiljanlega er hann þó í veikindaleyfi núna.

Rúnar fékk lyf við verkjunum og bólgunni, sem þó virtust ekki hafa mikið að segja að yfirsýn bestu fræðimanna svo segulómun, eða MRI, var þá næsta mál á dagskrá þar sem hið sanna kom í ljós. „Norska kerfið er náttúrulega þannig að þegar svona uppgötvast er helst ekkert verið að bíða með hlutina þannig að ég var mættur upp til Bergen bara vikuna á eftir í sýnatökur og viðtöl,“ segir Rúnar frá tíma þegar kórónuveiran var að steypast yfir heimsbyggðina af fullum þunga.

Bara hundsbit

Vika til viðbótar hafi svo liðið þar til allar niðurstöður lágu fyrir og þremur vikum eftir að Rúnar greindist með meinið var hann kominn í fyrri lyfjameðferðina. Hljóta það ekki að vera hin válegustu tíðindi fyrir mann, sem er rétt að skríða á miðjan aldur, fæddan 1974 og þar með jafnaldra þess sem hér skrifar, að taka á móti svo óboðnum og illa þokkuðum gesti sem krabbameini?

„Þetta er bara hundsbit. Maður verður bara að taka þessu eins og það kemur og berjast við það, vera bara jákvæður,“ svarar Rúnar hressilega og gerir lýðum ljóst að Suður-Þingeyjarsýsla uppfóstrar ekki fólk sem leggur árar í bát í mótvindi. Hann flutti til Noregs árið 2008 og ætlaði sér upphaflega ekki að stoppa lengi, en örlögin gripu þar í taumana í formi gjörningaveðurs bankahrunsins annálaða, næsta stóráfalls á undan heimsfaraldrinum.

Rúnar klár fyrir leik með föður sínum, Sigmundi Óla Eiríkssyni, …
Rúnar klár fyrir leik með föður sínum, Sigmundi Óla Eiríkssyni, sem hefur passað hundinn á meðan Rúnar er í Bergen auk þess að vera syni sínum stoð og stytta eins og feðra er siður. Ljósmynd/Aðsend

„Ég kom hingað út í eitt verkefni og Ísland varð gjaldþrota á meðan svo það var nú ekki beint að neinu aftur að snúa. Það var algjör tilviljun sem réð því að ég fór til Noregs, ég hafði aldrei séð það fyrir mér að flytja hingað. Ég vann við dyravörslu í mörg ár og þá fannst mér Norðmenn leiðinlegustu menn í heimi með áfengi,“ segir Rúnar og hlær innilega á meðan blaðamanni verður hugsað til eigin dyravörslutímabils í Stavanger árið 2012 þar sem gestir gátu vissulega verið allmisjafnir að skemmtanagildi.

Rúnar dregur þó fljótlega í land: „Eftir að hafa kynnst þeim betur finnst mér Norðmenn alveg fínasta fólk og ekkert síðri en Íslendingar.“ Hann sér ekki fyrir sér að flytjast búferlum í bráð, vissulega gæti hann fengið vinnu í sömu starfsgrein á Íslandi og hann stundar nú, en garður frændþjóðarinnar er blómlegur og lífið ágætt í Noregi. Ekkert liggi því á.

Mjög vel passað upp á mann

Rúnar ber heilbrigðiskerfi Norðmanna vel söguna og kveðst njóta bestu fáanlegu umönnunar á Haukeland-sjúkrahúsinu í Hansakaupmannaborginni fornu Bergen. „Hér er mjög vel passað upp á mann og gekk mjög fljótt að setja í gang það sem gera þurfti þegar þetta kom upp. Einu hnökrarnir kannski, sem ég get bent á, eru samskiptin milli sjúkrahúsanna. Það er eins og hvert og eitt sjúkrahús sé bara með sitt eigið upplýsingakerfi. Ég var sem sagt í meðhöndlun hér í Bergen [í fyrra] og þurfti svo að leggjast inn á sjúkrahús í Stavanger vegna sýkingar sem ég fékk í kjölfarið. Þá hafði sjúkrahúsið í Stavanger engan aðgang að mínum sjúkragögnum,“ segir Rúnar frá. Málin hafi þó verið leyst gegnum síma, en þannig eigi það auðvitað ekki að ganga fyrir sig á tíma stafrænnar upplýsingahraðbrautar sem þekkir nánast engin landamæri.

Röntgenmynd í kjölfar einnar margra aðgerða en skipta þurfti um …
Röntgenmynd í kjölfar einnar margra aðgerða en skipta þurfti um hnjálið og stóran hluta lærbeins í hægri fæti Rúnars. Nýju „beinin“ eru úr títani. Ljósmynd/Aðsend


Hann hefur dvalið á sjúkrahúsinu í Bergen með hléum í þessari síðari lyfjameðferð, fyrst í tvær og hálfa viku, svo fimm daga og þegar viðtalið er tekið hefur hann verið á Haukeland í 15 daga í meðferðinni. Þá var fyrri lotan langt frá því að vera heiglum hent, hún stóð frá febrúar fram í október í fyrra og varði lyfjagjöf þá í fjóra til fimm sólarhringa í senn. Hvernig er heilsan eftir slíkar þrekraunir, sem hrakningar Ódysseifs í kviðum blinda skáldjöfursins Hómers virðast fölna við hliðina á?

„Ja, maður er bara alveg búinn, ég var alveg handónýtur,“ viðurkennir Húsvíkingurinn og segir ónæmiskerfið hreinlega fara í algjört rugl, eins og hann orðar það, við lyfjagjöfina, sem er ekki eina áskorunin í orrustunni því Rúnar hefur þurft að fara í margar skurðaðgerðir, meðal annars skipti á hnjálið og stórum hluta lærbeins. „Fyrsta aðgerðin gekk nú bara miklu betur en ég þorði að vona,“ segir Rúnar af því þegar hnjáliður úr títani var græddur í hann. „Ég þakka bara fyrir að hafa ekki misst fótinn, það var tvennt í stöðunni, að taka hann alveg eða skipta um þessa hluta,“ segir Rúnar, sem var settur í þá lítt öfundsverðu stöðu að ákveða þetta sjálfur. „Ég hefði getað valið að láta bara taka hann alveg, en ég verð að segja þér að ég var ekki alveg tilbúinn í það,“ játar Rúnar og lái honum hver sem vill.

Hefur aldrei liðið illa hérna

„Þetta er alveg stórkostlegt fólk, sem vinnur hérna,“ segir Rúnar, þýfgaður svara um hvernig samskipti hans við lækna og hjúkrunarfólk gangi fyrir sig, „samskiptin við þetta fólk eru frábær, umhyggjan og hlýhugurinn, sem maður upplifir hér er alveg einstakt. Þetta er auðvitað bara rútína, þú ert vakinn klukkan átta til að fara í lyf og svo ræður maður eiginlega deginum eftir það, læknir kemur einu sinni á dag og fer yfir stöðuna svo þú ert alltaf upplýstur um gang mála,“ segir hann og telur einnig aðdáunarvert hvernig staðið hafi verið að málum í öllum þeim áskorunum sem átján mánuðir af kórónufaraldri buðu upp á í heilbrigðiskerfinu. „Það hafði nánast engin áhrif á framkomu fólks hér, sem er ótrúlegt. Mér hefur aldrei liðið illa hérna,“ segir Rúnar sannfærandi.

Ummerkin eftir skurðinn leyna sér ekki en möguleikarnir í stöðunni …
Ummerkin eftir skurðinn leyna sér ekki en möguleikarnir í stöðunni voru tveir, að skipta beinum út fyrir títan eða taka fótinn alveg af. Rúnar fékk að greiða atkvæði um þá valkosti og var ekki alveg tilbúinn að fórna fætinum. Skiljanlega. Ljósmynd/Aðsend

Hvað skyldi þá vera fram undan á vígvellinum? „Áætlunin gerir ráð fyrir að ég sé hérna eina vika í einu og svo heima í tvær þangað til meðferðinni er lokið og svo er bara að reyna að koma sér í gang í vinnunni aftur. Ég var kominn til baka í 60 prósent starf þegar ég greindist aftur með sömu gerð krabbameins, en núna er það í lungum, sem betur fer ekki víðar en það og planið er bara að koma aftur af fullum krafti inn í lífið,“ segir Rúnar ákveðinn.

Læknar Rúnars gera lítið af því að ræða um hvaða líkur skilji milli feigs og ófeigs í baráttu hans. „Þeir segja í rauninni bara að þeir væru ekkert að fara í þessa meðferð nema þeir teldu sig geta læknað þetta,“ segir Rúnar sem gleðst enn fremur yfir kostnaðarhlið verkefnisins. „Þetta er 2.500 kall sem þú borgar [37.000 íslenskar] og svo kemur fríkort norska heilbrigðiskerfisins inn og þá er allt á kostnað ríkisins eftir það, allar flugferðir og allt annað,“ segir hann af sjúkrakostnaði.

„Þykir vænt um ykkur öll“

Faðir Rúnars, Sigmundur Óli Eiríksson, er kominn til Noregs og passar Loka, hund sonar síns, í Sandnes á meðan heilbrigðiskerfið vinnur ötullega að því að skila Rúnari aftur út í lífið. Hann viðurkennir að faðir hans beri kvíðboga fyrir því sem nú stendur yfir, enda missti Rúnar móður sína úr krabbameini fyrir nokkru. Ekkert sé þó í stöðunni annað en að líta björtum augum fram á veginn og láta hverjum degi nægja sína þjáningu.

Stund milli stríða. Rúnar á afmælisdaginn í fyrrasumar, búinn að …
Stund milli stríða. Rúnar á afmælisdaginn í fyrrasumar, búinn að sigrast á meininu í því sem svo reyndist vera fyrri hálfleikur. Hann er nú langt kominn með þann síðari. Ljósmynd/Aðsend

Botninn í viðtal við bjartsýnan Þingeying í lyfjameðferð á Haukeland í Bergen er sleginn með hans eigin orðum á Facebook 14. júlí í fyrra, á 46 ára afmælisdaginn:

„Kærar þakkir fyrir allar kveðjurnar og skilaboðin í gær og í dag. Nú fannst mér sérstaklega gaman að eiga afmæli á Facebook. Ég hafði það bara rólegt heima og fékk svo að njóta notalegrar kvöldmáltíðar með góðum vinum.

Ég get líka sagt góðar fréttir. Eins og þið kannski flest vitið greindist ég með krabbamein í beini í febrúar. Ég hef síðustu mánuði gengið í gegnum lyfjameðferð vegna þessa og fór svo í aðgerð í byrjun júní. Í þessari aðgerð var skipt um hægri hnélið og þurfti að fjarlægja stóran hluta af lærbeininu (19 cm). Ég fékk svo að vita það í síðustu viku að það tókst að fjarlægja allt meinið í þessari aðgerð. Það eru enn þá eftir nokkrar umferðir í lyfjameðferðinni en ég fer í gegnum það með jákvæðni.

Hjartans þakkir fyrir öll samtölin, kveðjurnar og like-in (hjörtun og knúsin) sem þið hafið sent til mín, það hefur hjálpað mér mikið í þessari baráttu. Mér þykir vænt um ykkur öll!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »