Metþátttaka í Hverfið mitt

Hér má sjá hlutfall þeirra íbúa sem kusu í hverju …
Hér má sjá hlutfall þeirra íbúa sem kusu í hverju hverfi. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Kosningaþátttaka í íbúalýðræðisverkefninu Hverfið mitt hefur aldrei verið meira en í ár. Þegar kosningum lauk á hádegi í dag var kosningaþátttakan 16,4%, þ.e. 16,4% íbúa 15 ára og eldri höfðu greitt atkvæð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Hugmyndirnar sem valið stóð um voru 277 talsins en 111 þeirra hlutu kosningu og verða framkvæmdar. Öll hverfi Reykjavíkur slógu sín þátttökumet. Mesta þátttakan var á Kjalarnesi, en fast á hæla Kjalarness komu Árbær og Norðlingaholt.

Hér má sjá þátttökuna frá 2012-2021.
Hér má sjá þátttökuna frá 2012-2021. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Þakka borgarbúum fyrir þátttöku

Alls tóku 18.389 íbúar þátt í kosningunni í ár en á kjörskrá voru 112.306 Reykvíkingar.

„Við viljum þakka borgarbúum fyrir að taka þátt í kosningunni, og leggja sitt af mörkum í átt að auknu íbúalýðræði. Það er það sem þetta gengur allt út á að stuðla að betri hverfum með innsýn og aðkomu borgarbúa,“ er haft eftir Eiríki Búa Halldórssyni, verkefnastjóra, í tilkynningu.

Verkefnin sem kosin voru til framkvæmda núna eru 111 talsins og bætast við þau 787 verkefni sem hafa nú þegar orðið að veruleika í gegnum íbúalýðræðið í Hverfið mitt.

Í tilkynningunni segir að verkefnin verði framkvæmd næsta sumar og leitast verði við að hafa samráð við hugmyndasmiði um útfærslu verkefna - ekki síst í þeim tilfellum þegar þarf að breyta hugmyndum eða aðlaga.

mbl.is