Rákust saman á rafmagnsskútum

Tveir ungir drengir rákust saman á rafmagnsskútum í Grafarvogi á áttunda tímanum í gærkvöldi.

Annar þeirra fór á bráðamóttöku vegna meiðsla á hendi og fæti.

Þrjár tilkynningar bárust lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi um fólk í annarlegu ástandi og til vandræða, að því er segir í dagbók lögreglunnar.

Fyrsta tilkynningin barst á áttunda tímanum vegna manns í hverfi 104. Sú næsta barst á ellefta tímanum um konu í miðbæ Reykjavíkur og sú síðasta barst klukkan ellefu vegna manns í hverfi 105. Honum var ekið til síns heima.

Upp úr klukkan sjö í gærkvöldi var tilkynnt um umferðaróhapp í Vesturbænum. Ekki urðu slys á fólki en ökutæki voru flutt á brott með kranabifreið.

mbl.is