Úr þúsund yfir í nokkra tugi skjálfta á dag

Skjálftavirkni við Keili hefur dvínað mikið síðustu daga.
Skjálftavirkni við Keili hefur dvínað mikið síðustu daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jarðskjálftavirkni við Keili hefur stórminnkað á síðustu dögum. Skjálftarnir, sem fóru upp í rúmlega eitt þúsund á dag á tímabili, telja nú einungis nokkra tugi, að sögn Salóme Jórunnar Bernharðsdóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Erfitt er að meta hvort skjálftavirknin mun lognast alveg út af en engin skýr merki hafa bent til þess að kvika sé að brjóta sér leið til yfirborðs.

„Það er erfitt að segja hvað tekur við, það verður eiginlega að koma í ljós. Eins og er þá lítur þetta út fyrir að vera að hjaðna og má allt eins gera ráð fyrir að þetta lognist út af.“

Salóme segir að eftirlit muni halda áfram með óbreyttum hætti en að ekkert markvert eða merkilegt sé hægt að lesa úr mælingunum núna.

„Við erum enn þá með vefmyndavélar og það eru enn þá uppi jarðskjálftamælar og gasmælar á svæðinu líka.“mbl.is