Andlát: Björgvin Þorsteinsson

Björgvin Þorsteinsson.
Björgvin Þorsteinsson.

Björgvin Þorsteinsson, lögmaður og margfaldur Íslandsmeistari í golfi, lést á líknardeild Landspítala aðfaranótt fimmtudags, 68 ára að aldri eftir langa baráttu við krabbamein.

Björgvin fæddist á Akureyri 27. apríl 1953, sonur hjónanna Þorsteins Magnússonar vélstjóra og Önnu Rósamundu Jóhannsdóttur húsfreyju. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1973 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1980. Hann fékk réttindi sem héraðsdómslögmaður árið 1982 og sem hæstaréttarlögmaður 1986.

Björgvin starfaði sem fulltrúi sýslumannsins í Austur-Skaftafellssýslu 1980-1981 og fulltrúi á lögmannsstofu Gylfa og Svölu Thoroddsen 1981-1983. Hann starfaði sjálfstætt frá 1983, síðast hjá Draupni lögmannsþjónustu.

Björgvin sat í stjórn Golfklúbbs Akureyrar 1967-1969 og í stjórn Bridgesambands Íslands 1987- 1992, í stjórn Lögmannafélags Íslands 1985-1987 og í stjórn Golfsambands Íslands 1998-2002. Þá átti hann sæti í áfrýjunardómstól ÍSÍ undanfarna tvo áratugi.

Björgvin varð sex sinnum Íslandsmeistari í golfi á árunum 1971 til 1977 en hann keppti 56 sinnum á Íslandsmótinu, síðast í sumar á Jaðarsvellinum á Akureyri og var þá elsti keppandinn. Þá varð hann Íslandsmeistari í flokki kylfinga 65 ára og eldri í Vestmannaeyjum í sumar. Auk Íslandsmeistaratitlanna varð hann 9 sinnum meistari Golfklúbbs Akureyrar, Golfklúbbs Reykjavíkur tvisvar og Golfklúbbs Hafnar í Hornafirði einu sinni. Hann fór 11 sinnum holu í höggi á ferlinum. Björgvin var sæmdur heiðurskrossi ÍSÍ á ársþingi Íþrótta- og ólympíusambands Íslands nú í október.

Fyrri eiginkona Björgvins var Herdís Snæbjörnsdóttir, flugfreyja og fulltrúi, þau skildu. Dóttir þeirra er Steina Rósa. Síðari eiginkona Björgvins er Jóna Dóra Kristinsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. Stjúpsonur Björgvins og sonur Jónu Dóru er Kristinn Geir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »