Auglýsa starf forstjóra Landspítala

Landspítalinn.
Landspítalinn. mbl.is/Unnur Karen

Heilbrigðisráðuneytið hefur auglýst laust til umsóknar embætti forstjóra Landspítala.

Tilkynning þessa efnis hefur verið birt á vef stjórnarráðsins, en tíu dagar eru síðan greint var frá því að Páll Matthíasson léti af störfum sem forstjóri spítalans.

Heilbrigðisráðherra skipar í stöðuna til 5 ára frá 1.mars á næsta ári, og er umsóknarfrestur til 1. nóvember.

Ber ábyrgð á þjónustunni

Í tilkynningunni segir að Landspítali sé aðalsjúkrahús landsins og háskólasjúkrahús.

„Á spítalanum er veitt sérhæfð sjúkrahúsþjónusta, m.a. á göngu- og dagdeildum, fyrir alla landsmenn og almenn sjúkrahúsþjónusta fyrir íbúa heilbrigðisumdæmis höfuðborgarsvæðisins. Nánar er kveðið á um hlutverk hans í lögum nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu. Á Landspítala starfa á sjötta þúsund starfsmenn og er spítalinn einn stærsti vinnustaður landsins.“

Tekið er fram að forstjóri beri ábyrgð á að Landspítali starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf sem heilbrigðisráðherra setur. Forstjóri beri ábyrgð á þeirri þjónustu sem spítalinn veitir, að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma séu í samræmi við lög um opinber fjármál nr. 123/2015 og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt.

„Lögum samkvæmt skal forstjóri hafa háskólamenntun og/eða reynslu af rekstri og stjórnun sem nýtist honum í starfi.“

Hæfniskröfur

Eftirtaldar eru hæfniskröfurnar sem getið er í auglýsingunni:

  1. Háskólamenntun á framhaldsstigi sem nýtist í starfi er skilyrði.
  2. Reynsla af rekstri og stjórnun, þ.m.t. mannaforráð, sem nýtist í starfi er skilyrði.
  3. Leiðtogahæfileikar og framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum er skilyrði.
  4. Reynsla af stefnumótun og innleiðingu nýunga er skilyrði.
  5. Skýr framtíðarsýn.
  6. Þekking á sviði heilbrigðisþjónustu.
  7. Þekking og reynsla á sviði opinberrar stjórnsýslu.
  8. Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum.
  9. Mjög gott vald á íslensku og færni til að tjá sig í ræðu og riti er skilyrði.
  10. Góð kunnátta í ensku og kunnátta í a.m.k. einu Norðurlandamáli.

Þá er sagður kostur að umsækjandi hafi þekkingu á fjármálum hins opinbera.

mbl.is