Börnin fái að sækja skólann sinn sem fyrst

Margir foreldrar mættu til fundar sem var haldinn í Bústaðakirkju …
Margir foreldrar mættu til fundar sem var haldinn í Bústaðakirkju á mánudaginn var vegna húsnæðismála í Fossvogi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum ærleg við borgarstjóra og ég trúi að hann hafi verið ærlegur við okkur,“ sagði Karl Óskar Þráinsson, formaður foreldrafélags Fossvogsskóla. Fulltrúar foreldra hittu Dag B. Eggertsson borgarstjóra 12. október. Fundurinn var rúmlega tveggja tíma langur og gátuforeldrarnir lýst áhyggjum sínum og kröfum, að sögn Karls. Foreldrafélagið sendi frá sér kröfur í níu liðum í gær. En hvaða atriði vega þyngst?

„Okkur skiptir mestu til skemmri tíma að tryggja að börnin komist aftur á Fossvogstorfuna sem allra fyrst og ekki síðar en næsta haust,“ sagði Karl. Miðað við upplýsingar sem þau hafa fengið um ástand miðjuhúss skólans og hve úrelt það er finnist þeim það vera að kasta peningum á glæ að reyna að bjarga því og komast mögulega ekki fyrir vandann. Ástand miðjuhússins fengu foreldrarnir staðfest á fundi með skóla- og frístundasviði og fleirum í Bústaðakirkju á mánudaginn var. Þar kom einnig fram að húsið henti mjög illa til kennslu.

Miðjuhúsið verði rifið

„Við viljum að miðjuhúsið verði rifið. Það er ábyrgara að láta það fara en að reyna að halda því. Þetta er þriggja hæða hús á fimm pöllum. Íþróttasalurinn er svo lítill að hann dugar ekki fyrir einn bekk í einu. Aðgengi er alls ekki fyrir alla, heldur fáa. Matsalurinn er í aukarými í kjallara sem aldrei var hugsað til notkunar fyrir börnin. Þar inn af eru skolpbrunnar sem er ekki boðlegt. Börnin eiga betra skilið,“ sagði Karl.

Karl Óskar Þráinsson, formaður foreldrafélags Fossvogsskóla.
Karl Óskar Þráinsson, formaður foreldrafélags Fossvogsskóla.

Foreldrafélagið fer fram á að umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar svari erindi frá 6. september um hvers vegna hróflað var við asbesti í skólanum sumarið 2019 án forathugunar. Það var sett á sinn stað eftir viðgerðir en fjarlægt síðasta sumar.

Þá er þess krafist að skipt verði út starfsmönnum umhverfis- og skipulagssviðs og ráðgjafa frá Verkís „sem hafa ítrekað brugðist börnunum okkar undanfarin þrjú ár“. Fullkomið vantraust er sagt ríkja hjá foreldrum til þessara manna.

Þess er krafist að umhverfis- og skipulagssvið gangi ekki skemur í endurbótum en ráðleggingar EFLU segja til um. Einnig verði byggingar endurhannaðar. „Foreldrar hafa verulegar, rökstuddar áhyggjur af færni, samstarfsvilja og afkastagetu núverandi arkitekts.“

Þá vilja foreldrarnir eiga fulltrúa í skipulags- og framkvæmdarhópum verkefnisins. Einnig veiti Reykjavíkurborg skólastarfinu meiri stuðning í formi aukinna fjárframlaga og mönnunar. Auk þess þurfi að efla verulega upplýsingagjöf til foreldra og starfsmanna.

Kennsla hefjist aftur 2022

„Áætlanir sem hafa verið kynntar foreldrum gera ráð fyrir að kennsla hefjist í Fossvogsskóla í byrjun skólaárs 2022. Þær eru gerðar með eðlilegum fyrirvörum um að áætlanir gangi eftir,“ sagði Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs. Hann minnti á að ástand sé erfitt á verktakamarkaði og erlendis séu erfiðleikar á mörkuðum með byggingarefni. Þetta geti haft áhrif á framkvæmdirnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »