Ekki gert upp hug sinn um hvort hún sæki um

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, settur forstjóri Landspítala.
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, settur forstjóri Landspítala. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, forstjóri Landspítala, segir að hún sé ekki búin að gera upp hug sinn um hvort hún sæki um starfið. 

Starfið var auglýst í dag en Guðlaug var skipaður forstjóri í kjölfar þess að Páll Matthíasson sagði starfinu lausu fyrir skemmstu. Páll átti um tvö og hálft ár eftir af skipunartíma sínum þegar hann steig til hliðar og kom afsögn hans flestum að óvörum. 

Um leið og tilkynnt var um skipun Guðlaugar var hún spurð hvort hún hygðist sækja um starfið að endingu, en hún er skipuð til áramóta. 

Svaraði hún þá að hún ætti eftir að gera það upp við sig. Í samtali við mbl.is fyrr í dag sagðist hún enn óákveðin. 

„Ég er ekki búin að gera upp hug minn, ég er ennþá bara stödd á sama stað,“ sagði Guðlaug. 

Heil­brigðisráðherra skip­ar forstjóra Landspítala til 5 ára frá 1.mars á næsta ári, og er um­sókn­ar­frest­ur til 1. nóv­em­ber.

Í tilkynningu um starfsauglýsinguna á vef Stjórnarráðsins segir um hæfniskröfur:

  • Há­skóla­mennt­un á fram­halds­stigi sem nýt­ist í starfi er skil­yrði.
  • Reynsla af rekstri og stjórn­un, þ.m.t. manna­for­ráð, sem nýt­ist í starfi er skil­yrði.
  • Leiðtoga­hæfi­leik­ar og framúrsk­ar­andi hæfni í mann­leg­um sam­skipt­um er skil­yrði.
  • Reynsla af stefnu­mót­un og inn­leiðingu ný­unga er skil­yrði.
  • Skýr framtíðar­sýn.
  • Þekk­ing á sviði heil­brigðisþjón­ustu.
  • Þekk­ing og reynsla á sviði op­in­berr­ar stjórn­sýslu.
  • Frum­kvæði og sjálf­stæði í vinnu­brögðum.
  • Mjög gott vald á ís­lensku og færni til að tjá sig í ræðu og riti er skil­yrði.
  • Góð kunn­átta í ensku og kunn­átta í a.m.k. einu Norður­landa­máli.

Þá er sagður kost­ur að um­sækj­andi hafi þekk­ingu á fjár­mál­um hins op­in­bera.

mbl.is