Upplifði ekki að kosningarnar væru leynilegar

Maðurinn upplifði alls ekki að kosningarnar væru leynilegar og hefur …
Maðurinn upplifði alls ekki að kosningarnar væru leynilegar og hefur því krafist ógildingar kosninganna. mbl.is/Árni Sæberg

Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, kjósandi í Reykjavíkurkjördæmi suður, kveðst ekki hafa upplifað að Alþingiskosningarnar væru leynilegar og hefur á þeim grundvelli lagt fram kæru til ógildingar kosninganna.

Alþingi bárust alls 12 kærur vegna kosninganna sem birtar hafa verið á vef þingsins.

Kjörklefinn ekki með tjaldi

Kaus Rúnar í Borgarbókasafni við Kringluna en þar sem hann er lamaður fyrir neðan axlir vegna mænuskaða naut hann aðstoðar eiginkonu sinnar við kosninguna, sem ber vitni um málsatvik.

Kemur fram í téðri kæru að sá kjörklefi sem ætlaður var fólki sem notar hjólastól var ekki með tjaldi svo Rúnar gat ekki dregið fyrir þegar hann kaus en á meðan hann greiddi atkvæði gekk ókunn manneskja framhjá kjörklefanum.

Gat séð til kjósenda á meðan hann greiddi atkvæði

„Þess ber að geta að gangurinn sem viðkomandi manneskja gekk á var svo þröngur að umræddur einstaklingur hefur verið í um það bíl eins til tveggja metra fjarlægð frá kæranda þegar hann merkti við kjörseðilinn. Engar hindranir virðast hafa verið settar upp á þennan gang til að minnka líkur á því að slík umferð ætti sér stað á meðan fólk kaus,“ segir í kærunni en Katrín Oddsdóttir lögmaður sækir málið fyrir hönd Rúnars.

Upplifði Rúnar talsverð óþægindi í tengslum við fyrirkomulagið, meðal annars þar sem hann gat séð kjósendur sem stóðu í biðröð við kjördeildina á meðan hann greiddi atkvæði.

Krefst hann þess að Alþingi rannsaki með ítarlegum, opnum og gegnsæjum hætti öll þau meint brot sem hafa verið kærð í tengslum við kosningarnar og óskar þess að fá að koma fyrir kjörbréfanefnd Alþingis og lýsa sjónarmiðum sínum.

mbl.is