Vilja ekki hjúkrunarheimili á lóð skólans

Borgarholtsskóli.
Borgarholtsskóli. mbl.is/Sigurður Bogi

Stjórn íbúasamtaka Grafarvogs gerir athugasemdir við skipulagsbreytingar lóðar Borgarholtsskóla. Sú lóð hafi verið hugsuð undir skólastarf Borgarholtsskóla og að enn sé þörf á nýtingu þess með stækkun skólans.

Þetta segir í tilkynningu frá stjórn íbúasamtaka Grafarvogs.

Þar er vísað til þess að fyrirhugað sé að byggja hjúkrunarheimili á lóð Borgarholtsskóla. Hjúkrunarheimilið Eir stendur nú þegar við hlið Borgarholtsskóla í tiltölulega nýlegu húsnæði.

„Á seinustu árum hefur eftirspurn aukist í iðn- og tækninám. Auk þess er komin krafa um að gera bíliðngreinum hærra undir höfði í iðnnámi til að mæta þeim tæknilegum kröfum í viðhaldi á rafmagns og tvin bílum. Einnig viljum við benda á að á síðasta hausti þurftu margir nýnemar frá að hverfa sökum plássleysis í skólanum. Ef heildrænt er litið á málið þá er það mun hagkvæmara að stækka skólann á lóðinni í stað þess að byggja nýjan skóla frá grunni á öðrum stað þar sem allir innviðir eru til staðar í Borgarholtsskóla,“ segir í tilkynningunni.

Hluti hjúkrunarheimilsins Eirar, sem stendur við hlið Borgarholtsskóla. Einnig er …
Hluti hjúkrunarheimilsins Eirar, sem stendur við hlið Borgarholtsskóla. Einnig er Eir með starfsemi í Húsahverfi Grafarvogs, nærri Grafarvogslaug. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hjúkrunarheimili takmarki stækkunarmöguleika skólans

Enn fremur segir að mikilvægt sé að ígrunda heildarmyndina þegar byggja á hjúkrunarheimili, allt frá skjólgóðum görðum til sem hafa meðferðarlegt gildi til bílastæða fyrir starfsfólk og aðstandendur.

Stjórn íbúasamtakanna bendir á að fjölmargir staðir séu hentugri fyrir byggingu hjúkrunarheimilis en lóð Borgarholtsskóla, sem stjórnin segir að nú þegar þurfi á stækkun að halda. Þannig muni nýtt hjúkrunarheimili takmarka stækkunarmöguleika skólans.

„Við viljum benda t.d. á lóðarkosti fyrir hjúkrunarheimili, stækkunarmöguleika við Eir, í suðurhlíðum Húsahverfis, Keldnaholti eða í Sóltúni þar sem lóðin stendur tilbúin til byggingar strax, þar sem búið er að teikna og fá deiliskipulag samþykkt. Þar væri hægt að hefja byggingu nú þegar.

Við teljum óásættanlegt að stefna þessum mikilvægu stofnunum hvorri gegn annarri en teljum að fólk hafi ekki ígrundað heildarmyndina nægilega áður en ráðist var í auglýsa þessa hugmynd. En það má leiðrétta það á einfaldan hátt,“ segir í lok tilkynningarinnar.

mbl.is