Frá Póllandi í lögguna

Samfélagið verður sífellt fjölbreyttara segir Klaudia, hér við lögreglubíl á …
Samfélagið verður sífellt fjölbreyttara segir Klaudia, hér við lögreglubíl á leiðinni í eftirlitsferð. mbl.is/Sigurður Bogi

„Á Íslandi býr fólk sem kemur víða að úr heiminum og samfélagið verður sífellt fjölbreyttara. Samkvæmt þeim aðstæðum þurfa opinberar stofnanir að starfa, svo margir innflytjendur búa hér á svæðinu,“ segir Klaudia Karolsdóttir, lögreglumaður á Ísafirði. Hún er pólsk að uppruna, kom hingað til lands 12 ára gömul árið 2008 og er fyrir löngu orðin Íslendingur. Klaudia hefur staðið vaktir í liði lögreglustjórans á Vestfjörðum frá 2017 og stefnir á lögreglunám.

Tikkaði í öll boxin

Að vera orðin tvítug, með stúdentspróf, íslenskan ríkisborgararétt og hreint sakavottorð. Þetta voru svörin sem Klaudia fékk frá Hlyni Hafberg Snorrasyni, yfirlögregluþjóni á Vestfjörðum, þegar hún þá 18 ára gerði sér erindi á stöðina á Ísafirði og spurði hvaða skilyrði giltu svo hún kæmist í lögregluliðið. „Ég miðaði allt mitt út frá þessu og kom svo aftur á stöðina tveimur árum síðar. Sagðist tikka í öll boxin og spurði um vinnu. Hlynur gaf mér tækifæri og svo var ég tekin inn á vaktir. Hef verið í lögreglunni núna í um fjögur ár og finn mig í starfinu.“

Klaudia er frá borginni Lomza í NA-hluta Póllands. Faðir hennar kom til starfa á Íslandi árið 2005, þá til þess að afla tekna og sjá sínu fólki farborða þegar þröngt var um vinnu í heimalandinu. „Ég, bróðir minn og móðir komum til Íslands árið 2008 og fórum til Suðureyrar, þar sem pabbi hafði vinnu. Já, það var talsvert mál að ná íslenskunni en Snorri Sturluson, minn frábæri kennari á Suðureyri, tosaði mig í gegnum þetta, sem ég er honum ævinlega þakklát fyrir,“ segir Klaudia.

Verkefni lögreglumanna eru fjölbreytt og sum reyna á. „Ég hafði verið aðeins þrjá mánuði í starfi þegar ég fór í útkall vegna voveiflegs atburðar. Sjálfsagt var ég alls ekki undir verkefnið búin en stuðningur frábærra vinnufélaga í kjölfarið bjargaði mér. Umferð, ölvun, hávaði, aðstoð við fólk í vanda og fleira; þessu hef ég kynnst og líka að vera á vettvangi í óveðri og áhættu. Íslendingar bera virðingu fyrir lögreglunni; fylgja þeim lögum og fyrirmælum sem gilda þótt vissulega sé til fólk sem er með ströggl og leiðindi. Slíkt hendir alltaf, en þá er bara að taka málum af festu en þolinmæði,“ segir Klaudia.

Tengiliður landa minna

Svæði Ísafjarðarstöðvar lögreglunnar á Vestfjörðum nær frá Dynjanda í suðri, út í Bolungarvík og inn í Ísafjarðardjúp – alls sjö þéttbýlisstaðir og um 5.000 íbúar. Í Ísafjarðarbæ er um fimmtungur íbúa innflytjendur frá öðrum löndum.

„Stundum hendir í eftirlitsferðum að við þurfum að hafa tal af fólki af pólskum uppruna, sem er fjölmargt hér á svæðinu. Því kemur sumu hverju á óvart að hitta pólskumælandi lögreglumann, sem líka hefur þýtt að ég hef orðið tengiliður margra landa minna hér á svæðinu við lögregluna. Ýmis erindi og fyrirspurnir varðandi umferðarmál, réttindi og fleira koma oft til beint til mín, sem mér þykir vænt um að geta sinnt,“ segir Klaudia Karolsdóttir að síðustu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert