Mótmælt fyrir utan Hörpu

Mótmælt fyrir utan Arctic Circle-ráðstefnuna í Hörpu.
Mótmælt fyrir utan Arctic Circle-ráðstefnuna í Hörpu. mbl.is/Gunnlaugur

Sjö mótmælendur gerðu sér ferð að Hörpu í dag, þar sem Arctic Cirle-ráðstefnan um málefni Norðurslóða fer fram, og héldu uppi skiltum í mótmælaskyni. 

Mótmælendurnir virtust vera að mótmæla aðgerðarleysi ríkisstjórna heimsins í loftslagsmálum og héldu uppi stórum rauðum borða sem á stóð „Þetta er neyðarástand.“

Stjórnmálamenn, sérfræðingar og áhugafólk um málefni Norðurslóða og hnattræna hlýnun sóttu Arctic Circle-ráðstefnuna í ár.

Ólafur Ragnar Grímsson, stjórnarformaður Arctic Circle og fyrrverandi forseti Íslands, hóf opnunarávarp sitt í Hörpu á fimmtudag á þeim orðum að um 1.200 manns frá yfir 50 löndum væru komin saman til þess að ræða um tækifæri og verndun norðurskautsins. 

Sjö mótmælendur munu án efa ekki skemma fyrir skemmtanahöldum ráðstefnugesta, sem boðið er til veislu klukkan 18:30 í dag, eins konar lokahófs, í boði grænlenskra stjórnvalda. 

Það hefur verið margt um manninn í Hörpu undanfarna daga.
Það hefur verið margt um manninn í Hörpu undanfarna daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kanarnir vilja samning við Ísland

Meðal þess sem kom fram á ráðstefnunni í ár var að þingmenn öldungadeildar Bandaríkjaþings lýstu því yfir að þarlend stjórnvöld væru áhugasöm um að gera fríverslunarsamning við Ísland. 

Þannig sagði Lisa Murkowski, öldungadeildarþingmaður repúblikana frá Alaska, að hún vildi brýna fyir Joe Biden Bandaríkjaforseta mikilvægi þess að undirrita slíkan samning. 

Þessu fagnaði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og sagði:

„Við fögn­um mjög því þegar tekið er und­ir mála­fylgi okk­ar Banda­ríkja­meg­in. Það er eng­inn vafi að þegar reynd­ur öld­unga­deild­arþingmaður, eins og Lisa, seg­ir þetta á þess­um vett­vangi þá er full al­vara á bakvið þetta og það hjálp­ar okk­ur mjög.“

Sturgeon segir ekki nóg gert í kjölfar Parísarsamkomulagsins

Einna stærsti gesturinn á ráðstefnunni á ár var Nicola Sturgeon, forsætisráðherra heimastjórnar Skotlands. Hún sagði að ekki hafi verið nóg gert við að uppfylla loforð Parísarsamkomulagsins 2015 og vonaðist hún eftir því að stjórnvöld ríkja heimsins gengju lengra í kjölfar COP26-loftslagsráðstefnunnar, sem haldin verður í Glasgow í Skotlandi eftir um tvær vikur. 

Nicola Sturgeon, forsætisráðherra heimastjórnar Skotlands, og Ólafur Ragnar Grímsson, stjórnarformaður …
Nicola Sturgeon, forsætisráðherra heimastjórnar Skotlands, og Ólafur Ragnar Grímsson, stjórnarformaður Arctic Circle og fyrrverandi forseti Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sturgeon tók einnig undir með Katrínu Jakobsdóttir, sem flutti erindi á ráðstefnunni á fimmtudag, og sagði að bráðnun sífrera á Norðurslóðum gleymast í umræðunni um hnattræna hlýnun. Þannig losi slík bráðnun metangas, gróðurhúsalofttegund sem kyndir undir hnattrænni hamfarahlýnun. 

mbl.is