Óvenjumikið að gera tengt skemmtanahaldi

Nóttin var erilsöm í sjúkraflutningum.
Nóttin var erilsöm í sjúkraflutningum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Nóttin og síðasti sólarhringur voru erilsöm hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, en samtals sinnti slökkviliðið 134 sjúkraflutningum. Þar af voru 32 forgangsflutningar og 14 vegna covid-19. Á næturvaktinni voru samtals 51 flutningur og var tæplega helmingur, eða 25 flutningar, forgangsflutningar. Þykir það ansi hátt hlutfall, en stór hluti tengdist skemmtanahaldi í miðbænum.

Greint er frá þessu á Facebook-síðu slökkviliðsins, en vakthafandi hjá slökkviliðinu greindi mbl.is frá því að þetta hefðu verið óvenjuerilsöm nótt í miðbænum tengd skemmtanahaldi. Væri þar um að ræða ýmiskonar útköll sem tengdust byltum og hnjaski hverskonar sem jafnan fylgdu skemmtanahaldi.

Ekkert útkall var á dælubílum síðasta sólarhringinn hjá slökkviliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert