Setja fram róttækar breytingar við Bústaðaveg

Nýju húsina munu skapa borgargötu með hverfistorgi milli Grímsbæjar og …
Nýju húsina munu skapa borgargötu með hverfistorgi milli Grímsbæjar og Garðaborgar. Ljósmynd/ Reykjavíkurborg

„Þetta er flókið verkefni, með stærri skipulagsverkefnum í borginni. Það er erfitt að endurskipuleggja heila borg,“ segir Ævar Harðarson, deildarstjóri Hverfisskipulag Reykjavíkur á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is en í vinnutillögum hverfiskipulags er gert ráð fyrir 17 nýjum byggingum með 130 til 150 nýjum íbúðum. Þá mun bílastæðum fjölga við Bústaðaveg úr 400 í að minnsta kosti 500 stæði. 

Tillögurnar eru hluti af vinnu við hverfisskipulag fyrir öll hverfi borgarinnar og eru nú í kynningar- og samráðsferli. 

Í aðsendri grein á Vísi segir Ævar að tillögurnar geri ráð fyrir að á svæði sem sem afmarkast af Grensásvegi i vestri og Réttarholtsvegi í austri geti risið blanda af atvinnuhúsnæði og íbúðum. Stærð þessa svæðis er 35 þúsund fermetrar og er byggingarmagn áætlað 18,5 þúsund fermetrar, þar af eru sjö þúsund fermetrar í bílakjöllurum.

Vinnutillögurnar gera ráð fyrir að á þessu svæði geti risið 17 byggingar sem eru tvær hæðir við Bústaðaveg. Landhallinn gefur svo möguleika á bílakjöllurum. Í þessum húsum er gert ráð fyrir að hafa 130 til 150 nýjar íbúðir á efri hæð og atvinnustarfsemi og þjónustu á götuhæð með hverfiskjarnann við Grímsbæ sem miðpunkt.

Hugmynd ráðgjafa hverfisskipulagsins að breyttu skipulagi við Grímsbæ.
Hugmynd ráðgjafa hverfisskipulagsins að breyttu skipulagi við Grímsbæ. Ljósmynd/Jakob Jakobsson arkitekt og Trípólí arkitektar

Viðbrögðin kynslóðaskipt

Ævar segir það vera fremur kynslóðaskipt hvernig fólk taki í tillögurnar. „Unga fólkinu finnst þetta mjög sniðugt en eldra fólkið er skeptískara. Við þekkjum þetta mjög vel að eldra fólkið er skeptískara á allar breytingar.“

Ævar nefnir sérstaklega að um sé að ræða vinnutillögur. „Þetta er til þess gert að fá fram viðbrögð við mögulegum umbreytingum. Það hefur lengi verið kallað eftir aðgerðum við Bústaðaveg og þetta er eitt útspilið.“

Samkvæmt tillögunum munu nýju húsin skapa rými við borgargötu með hverfistorgi milli Grímsbæjar og Garðaborgar. Nýju byggingarnar verða lágreistar en munu skapa skjól og mynda ekki meira skuggavarp en húsin sem eru fyrir á svæðinu.

Sniðmyndir sem sýna núverandi aðstæður og breytinguna.
Sniðmyndir sem sýna núverandi aðstæður og breytinguna. Ljósmynd/Trípólí arkitektar

Setja fram róttækar hugmyndir til að ná athygli fólks

Á fimmtudaginn verður íbúum og hagsmunaaðilum boðið í hverfisgöngu um svæðið. Að henni lokinni verður fundur í Réttarholtsskóla. „Þar viljum við heyra í íbúum og fá viðbrögð. Þetta er fyrst og fremst samtal,“ segir Ævar og bætir við að það hafi reynst vel að setja fram róttækar hugmyndir til að ná athygli fólks. 

Hann segir að í framhaldinu muni skipulagssvið borgarinnar vinna úr tillögunum og svara öllum sem hafa sent inn athugasemdir. Vinnutillögurnar verða síðan aftur lagðar fram eftir áramót. „Þá verður um að ræða þennan lögbundna kynningar- og auglýsingatíma og við svörum öllum athugasemdum formlega.“

Ævar nefnir að vinnutillögurnar séu hluti af vinnu við öll hverfisskipulag borgarinnar. „Við erum búin með Árbæ, í sumar vorum við að klára Breiðholt og nú erum við komin í Háaleiti, Bústaði og í Hlíðum verðum við með svipað upplegg í næsta mánuði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert