Útlit fyrir storm á morgun

Kort/Veðurstofa Íslands

Útlit er fyrir slæmt veður á næstu dögum og von er á að lægð gangi yfir landið sem kemur úr suðvestri. Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að henni fylgi stormur sem mun ganga yfir suðurströnd landsins.

„Það verður rigning eða slydda á láglendi en snjókoma til fjalla, það snjóar í öðrum landshlutum á morgun. Það hlýnar skarpt með lægðinni á mánudagsmorgun og þá verður þetta orðin rigning í öllum landshlutum,“ segir Eiríkur.

Veðurstofa Íslands er búin að gefa út fjórar gular viðvararnir vegna veðursins sem mun ganga yfir landið á morgun og aðfaranótt mánudags. Spáð er hríð á Vestfjörðum og miklum vindum á Suðurlandi. 

Aðstæður gætu orðið varhugaverðar

„Þessi lægð staldrar aðeins við og það verður talsverð úrkoma á Austfjörðum fram á þriðjudag.“

Eiríkur hvetur fólk til að passa upp á lausamuni til að koma í veg fyrir tjón og segir aðstæður fyrir vegfarendur með aftanívagna eða á bílum sem taka á sig mikinn vind varhugaverðar.

„Svo að hafa í huga með heiðarnar: Í svona miklum vind og snjókomu getur orðið mjög blint og möguleiki að þær lokist.“

Að lokum segir Eiríkur að allt bendi til þess að það fari að lægja aðfaranótt miðvikudags.

„Það er útlit fyrir að það verði rólegra veður á miðvikudag og fram eftir vikunni. Þá lægir og birtir til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert