„Hrekkur“ endaði með dómsmáli

Í stuttu máli má segja að hrekkurinn hafi ekki heppnast.
Í stuttu máli má segja að hrekkurinn hafi ekki heppnast. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Maður var sakfelldur í Landsrétti á föstudag fyrir að hafa án heimildar og í blekkingarskyni límt falsaðan skoðunarmiða á skráningarmerki og sett þau á bifreið, sem hafði önnur skráningarmerki en dæmdi bar fyrir sig að um hrekk hafi verið að ræða.

Sýknukrafa ákærða byggðist á því að ósannað væri að hann hafi haft ásetning til að nota skráningarmerkið í blekkingarskyni en tilgangurinn hefði verið að hrekkja eiganda bifreiðarinnar og kanna viðbrögð hans „við svona snöggri viðgerð“.

Fékk hugmyndina frá manni sem hann hitti á Seyðisfirði

Í dómi Landsréttar kemur fram að hugmyndina hafi dæmdi fengið hjá manni sem hann hitti á Seyðisfirði en muni ekki nafnið á – sá maður hafi útbúið skoðunarmiðana sem hann síðar límdi á skráningarmerkin. Til hafi staðið að mynda viðbrögð bifreiðareigandans en ekki hefði komið til þess þar sem lögreglan hefði áður klippt skráningarmerkin af bifreiðinni.

Héraðsdómur Austurlands hafði komist að þeirri niðurstöðu að ákærði skyldi sæta 30 daga fangelsisvistar en fullnustu refsingarinnar skyldi frestað og hún látin niður falla að tveimur árum liðnum haldi ákærði skilorð. 

Ríkissaksóknari áfrýjaði niðurstöðunni til Landsréttar sem mildaði dóminn og ákvað að refsing ákærða yrði 150.000 króna sekt innan fjögurra vikna frá dómsuppkvaðningu.

Miðarnir til þess fallnir að blekkja

Í dómi Landsréttar kemur fram að hvort sem bifreiðinni hafi verið ekið eða ekki hefði tilvist merkjanna og miðanna gefið þá röngu mynd að merkin væru á réttri bifreið og að heimilt hefði verið að aka henni.

Yrði af þeim sökum að líta svo á að merkin og miðarnir hefðu verið til þess fallnir að blekkja í lögskiptum í skilningi 1. mgr. 155. gr. og 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga.

mbl.is