„Mestu norðurljós sem hafa orðið í tugi ára“

Gunnar segist aldrei hafa séð annað eins sjónarspil. Hann segir …
Gunnar segist aldrei hafa séð annað eins sjónarspil. Hann segir myndirnar vera örlítið hreyfðar þar sem skútan var á svo mikilli hreyfingu. Ljósmynd/Gunnar Guðjónsson

„Þetta eru einhver mestu norðurljós sem hafa orðið í tugi ára. Ég hef aldrei séð annað eins, það lýstist upp hafið. Þetta var alveg magnað,“ segir Gunnar Guðjónsson leiðsögumaður í samtali við mbl.is en hann tók myndir af norðurljósunum er hann sigldi á skútu austur fyrir Ísland á mánudagskvöld.

Gunnar er vanur ferðum upp á fjöllum Íslands þar sem hann sér oft norðurljós en hann segir þetta kvöld hafa verið einstakt. Gunnar er einnig vanur siglingum en hann hefur meðal annars unnið fyrir Norðursiglingu.

Skútan ber nafnið Vera og var smíðuð árið 1981.
Skútan ber nafnið Vera og var smíðuð árið 1981. Ljósmynd/Gunnar Guðjónsson

Síðasta sunnudag lögðu Gunnar og eigendur skútunnar af stað frá Akureyri á leið til Skotlands með skútuna í viðhald. Skútan ber nafnið Vera og var smíðuð árið 1981. Hún sinnir siglingum á Scoresbysundi á Grænlandi. 

„Við höfum verið að bíða eftir veðurglugga til þess að sigla til Skotlands. Á veturna er Atlantshafið yfirleitt ekkert skemmtilegt fyrir lengri skip.“

Skútan sigldi inn í Þórshöfn í Færeyjum á miðvikudagskvöld þaðan sem Gunnar flaug aftur heim. 

„Alvöru ævintýraferð“

„Það var búið að ganga á ýmsu hjá okkur, bæði vont veður og svo bilaði hjá okkur stýrið. Þannig að þetta var alvöru ævintýraferð,“ segir Gunnar og hlær. 

„Við héldum að við værum í alvöru vandræðum þarna á tímabili en náðum að laga það,“ segir Gunnar og bætir við að hann sé uppgefinn eftir ferðina. „Maður verður svo þreyttur á svona miklum veltingi í marga sólarhringa. Ég hef þó aldrei orðið sjóveikur.“

Hann segir að skútan Vera muni að síðasta lagi koma til Skotlands annað kvöld en á mánudag er spáð mjög slæmu veðri. Gunnar segir áhöfnina því verða að vera komin í höfn fyrir mánudag.

Gunnar segir norðurljósin hafa lýst upp hafið.
Gunnar segir norðurljósin hafa lýst upp hafið. Ljósmynd/Gunnar Guðjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert