Styðja norska vinabæinn

Forsætisráðherra Noregs, Jonas Gahr Støre, og dómsmálaráðherra, Emilie Enger Mehl, …
Forsætisráðherra Noregs, Jonas Gahr Støre, og dómsmálaráðherra, Emilie Enger Mehl, minntust fórnarlamba árásarinnar á föstudaginn. AFP

Sveitarfélagið Skagafjörður eins og það heitir núna er vinabær Kongsberg í Noregi og rann Skagfirðingum blóðið til skyldunnar að styðja sinn vinabæ eftir hörmulegan atburð þar á miðvikudagskvöldið. Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri bað starfssystur sína, Kari Anne Sand, bæjarstjóra í Kongsberg, fyrir innilega samúðarkveðju til „fjölskyldu og aðstandenda þeirra sem létust af völdum ódæðisverks sem framið var í borginni í gærkvöldi,“ eins og það er orðað í tilkynningu á Facebook-síðu sveitarfélagsins á fimmtudaginn.

„Þetta slær fólk auðvitað illa, bæði hér í Skagafirði og á Íslandi yfirhöfuð,“ segir Sigfús Ingi í samtali við Morgunblaðið, „okkar ímynd af Noregi er að þetta sé svipað samfélag og hjá okkur hér heima. Norðmenn eru náttúrulega mikil vinaþjóð okkar og maður hugsar til þessa fólks og vafalaust líta margir sér nær og spyrja sig hvenær svona lagað muni mögulega gerast á Íslandi,“ segir sveitarstjórinn.

Samstarfið breyst í áranna rás

Blaðamann rámar óljóst í einhver dönsk vinabæjartengsl við uppeldisstöðvarnar í Garðabæ fyrir hátt í 40 árum, en ekki mikið meir. Eru þessi norrænu vinabæjarsambönd enn í heiðri höfð? „Þetta hefur breyst svolítið,“ svarar Skagfirðingurinn, „við erum í samstarfi við Kongsberg í Noregi, Kristianstad í Svíþjóð, Espoo í Finnlandi og Køge í Danmörku. Þetta formlega samstarf hefur breyst í áranna rás, okkar mestu tengsl eru við Køge, þangað sem skagfirskir krakkar, hvort tveggja úr Árskóla á Sauðárkróki og Varmahlíðarskóla, tíundubekkingar, hafa farið á hverju ári, fyrir utan núna um Covid-tímann auðvitað, til að rækta tengslin,“ segir Sigfús Ingi frá, en auk þess hafa bæjarfulltrúar sveitarfélaganna komið saman á vinabæjarmótum og borið saman norrænar bækur sínar.

„Staðirnir fimm hafa þá skipst á að halda þetta, við vorum síðast í Kongsberg 2015, á þjóðhátíðardegi Norðmanna, og svo verð ég auðvitað að nefna að Kongsberg sendi um áratuga skeið alltaf jólatré á Krókinn [Sauðár], en vegna stefnu okkar í loftslagsmálum var ákveðið fyrir nokkrum árum að afþakka þessa gjöf og að við notuðum þá frekar tré úr heimabyggð.“

Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri.
Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Harmar að mótin lögðust af

Vinabæjarmótin svokölluðu segir Sigfús Ingi hafa verið tveggja til þriggja daga mót þar sem fulltrúar bæjanna komu saman og ræddu ýmsa aðferðafræði. „Það voru alltaf einhver þemu á hverju móti, hvernig þetta væri gert á þessum stað og svo framvegis, straumar og stefnur, fólk lærði hvert af öðru og svo var farið og gestunum sýnt það markverðasta í framkvæmdum eða einhverju skemmtilegu á hverjum stað,“ útskýrir Sigfús Ingi.

Hann segir þó formleg vinabæjarmót hafa lagst af fyrir nokkrum árum og harmar það. „Okkar krakkar fara hins vegar áfram til Køge, en þó var ákveðið að kæmu menn auga á einhverja ákveðna samstarfsmöguleika eða fleti á norrænum eða evrópskum vettvangi yrði auðvitað fyrst litið til vinabæjanna.“

Opnar augun fyrir dönskunni

Tengslin við Køge í Danmörku eru þó blómleg að sögn Sigfúsar Inga, þangað fari almennt kringum 40 nemendur frá Sauðárkróki og 15 frá Varmahlíðarskóla ár hvert og dveljist um nokkurra daga skeið. Nemendur hafi látið vel af ferðunum, sem eru blanda af skemmtun og fræðslu. „Að koma til Danmerkur opnar augun fyrir dönskukunnáttu,“ segir Sigfús Ingi, inntur eftir viðhorfi íslenskra grunnskólanemenda til dönskukennslu.

„Mér finnst mjög mikilvægt að þessi skandinavísku tengsl séu ræktuð, hvernig sem þau eru, ég tók til dæmis þátt í Erasmus-verkefni með skólum í Danmörku og Finnlandi, það voru ekki vinabæir í því tilfelli, en það er bara virkilega gott og lærdómsríkt að starfa með okkar vina- og frændþjóðum í Skandinavíu,“ segir sveitarstjórinn í Skagafirði að skilnaði og ljóst að hugur fylgir máli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert