Datt ekki í hug að hlaupa á eftir ræningjanum

Vopnað rán var framið í Apótekaranum Vallakór fyrr í dag.
Vopnað rán var framið í Apótekaranum Vallakór fyrr í dag. mbl.is/Þorsteinn

„Ég bara titraði og skalf þegar ég kom út í bíl. Ég hef aldrei séð svona áður. Ég fékk bara algjört sjokk,“ segir kona sem varð vitni að ráninu í Apótekaranum Vallakór fyrr í dag, þegar ungur maður veittist að starfsfólki með dúkahníf. 

Sjónarvotturinn, sem vill ekki koma fram undir nafni, kveðst hafa komið auga á ræningjann á leið sinni úr apótekinu en hann var klæddur með einkennandi hætti í húfu og buff sem huldu andlit hans þannig að einungis sást í augun. 

„Hann er að labba þarna fram og til baka og mér sýndist hann vera með keðju í hendinni. Svo fór ég að hugsa – er þetta rán?“

Missti lyf í óðagoti

Hún labbaði út í bíl og var að fara að setjast inn þegar hún snýr sér við og sér hann gera atlögu að afgreiðslufólkinu. 

„Hann hljóp svona að borðinu og ég fylgist með. Ég var smá smeyk við hann þannig ég bakkaði að bílnum mínum og þá kemur hann hlaupandi út með fullt fangið af lyfjum og klessir á mann og missir þarna einhver lyf og hleypur síðan áfram. Mér datt náttúrulega ekki í hug að hlaupa á eftir honum, hann var stórhættulegur.“

Viðskiptavinur inni á meðan ránið átti sér stað

Konan tók í kjölfarið lyfin sem höfðu orðið eftir á gangstéttinni og færði þau til afgreiðslufólksins sem var vitaskuld mjög brugðið eftir árásina. Þá hafði einn viðskiptavinur verið inni á meðan ránið átti sér stað.

Lögreglan staðfesti í samtali við mbl.is að búið væri að handtaka grunaðan í málinu og verður hann í haldi þar til á morgun, þegar hægt verður að ræða við hann að sögn lögreglu.

mbl.is