Fórnarlambið komið úr aðgerð

Lögregla og sjúkraflutningabifreiðar voru sendar að Breiðholtslaug vegna stunguárásarinnar.
Lögregla og sjúkraflutningabifreiðar voru sendar að Breiðholtslaug vegna stunguárásarinnar.

Ungi maðurinn sem stunginn var fyrir utan Breiðholtslaug í dag er kominn úr aðgerð og gekk hún vel, að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar. Hann segir ekki alveg ljóst hvert ástandið á drengnum sé en það líti ágætlega út.

Lögregla og sjúkralið voru kölluð út fyrr í dag þegar tilkynnt var um hnífstunguárás í Breiðholtinu. Tildrög málsins eru ekki ljós en nokkur vitni voru á staðnum þegar árásin átti sér stað og sagði sjónarvottur í samtali við mbl.is að ungi maðurinn hefði verið með meðvitund þegar hann var fluttur af vettvangi.

Báðir undir lögaldri

Bæði gerandi og þolandi eru undir lögaldri en búið er að handtaka gerandann. Að sögn Gríms er hann nú í haldi. 

„Þeir sem eru undir 18 ára að aldri eru skilgreindir sem börn en þeir sem eru yfir 15 ára eru skilgreindir sem sakhæfir. Þannig að hann er í haldi okkar í augnablikinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert