Miklabraut ráði ekki við byggð í Keldnalandi

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur segir í samtali við mbl.is, tillögu Sjálfstæðisflokksins um uppbyggingu 3.000 nýrra íbúða „hefðbundið pólitískt útspil“ fremur en raunhæfa tillögu að úrbótum á húsnæðismálum í borginni.

„Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn sé fyrst og fremst að ná sér í fyrirsögn. Þarna er talað um lóðir fyrir 3.000 íbúðir en í lóðaúthlutunaráætlun borgarinnar er talað um 10.000 til viðbótar við fjölmarga deiliskipulagsreiti á höndum einkaaðila sem eru líka að koma inn,“ segir Dagur.

Dagur segir enn fremur að síðustu fimm ár hafi verið metár í uppbyggingu í borginni og að borgin sé tilbúinn með fjölda reita til uppbyggingar. Áætlanirnar verði kynntar á árlegum húsnæðisfundi borgarinnar í næstu viku. Hann segir að útlit sé fyrir að „mesta uppbyggingarskeið borgarinnar haldi áfram og gott betur“.

Umferðin ræður ekki við nýja byggð

Í tillögu Sjálfstæðisflokksins er talað um að flýta uppbyggingu í Keldnalandi og að unnt sé að byggja þar 2.000 íbúðir án þess að raska til að mynda rannsóknarmiðstöðinni í Keldum. Dagur segir uppbyggingu í Keldnalandi í ágætis farvegi. Unnið sé að skipulagi um uppbyggingu á svæðinu í samvinnu borgarinnar, ríkis og Betri samgangna ohf.

Hann segir þá einnig um Keldnalandið að ekki sé ráð að byggja þar fyrr en borgarlínan sé kominn í gagnið. Miklabrautin ráði einfaldlega ekki við umferðina sem fylgi nýju hverfi. Þessar tillögur falli á því að þær bitni á umferðarmálum fyrir íbúa í efri byggðum borgarinnar.

„Þetta virðist ekki vera hugsað alla leið, nema þá að þetta sé ákall um að flýta borgarlínunni. Ég hef nú sagt það áður að við hljótum að vera tilbúin að flýta henni.“

Óráðlegt að bæta við tugþúsunda manna byggð

Spurður út í stöðu mála í Úlfarsárdal, en Sjálfstæðisflokkurinn leggur til uppbyggingu um 500 íbúða þar segir hann: „Þetta er í okkar áætlun. Það er býsna þróttmikil uppbygging á svæðinu og verða nokkrar lóðir þar til ráðstöfunar á næstu misserum. En að bæta við einhverri tugþúsunda manna byggð væri óráðlegt vegna umferðarmála.“

Þá segir hann einnig áform um að Íþróttafélagið Fram muni flytja í Úlfarsárdal standast. „Aðstaðan verður klár þarna á næsta ári og mun Fram flytja að fullu í Úlfarsárdal árið 2023. Aðstaðan á svæðinu er því að verða framúrskarandi. Ekki á einu sviði heldur á öllum.“

Síðasti reiturinn sem Sjálfstæðismenn leggja til uppbyggingu strax er BSÍ reiturinn en Dagur segir uppbyggingu á þeim reit einnig vera á áætlun borgarinnar. „Þarna er stefnt að því að vera með blöndu af íbúðar og atvinnuhúsnæði auk einhverrar þjónustu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert