Segir skæða flensu geta komið niður á spítalanum

Þórólfur hefur sagst horfa mest til stöðunnar á spítalanum hvað …
Þórólfur hefur sagst horfa mest til stöðunnar á spítalanum hvað varðar afléttingar.

„Það sem ég hef sagt og menn hafa svosem svona túlkað það á ýmsa vegu, er að ef við fáum skæðan inflúensufaraldur núna í vetur að þá gæti það minnkað eða komið niður á getu spítalans til þess að fást við Covid.“

Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, en eins og greint hefur verið frá skilaði hann minnisblaði í dag til heilbrigðisráðherra, þar sem hann segir stjórn­völd standa frammi fyr­ir þrem­ur mögu­leik­um hvað varðar sótt­varn­ir, halda tak­mörk­un­um óbreytt­um, aflétta í skref­um áfram eins og gert hef­ur verið eða að aflétta öll­um tak­mörk­un­um.

Þórólfur hefur að undanförnu sætt gagnrýni fyrir að vera tregur til að leggja til tilslakanir. Fyrr í dag vísaði hann til föðurhúsanna ummælum Hildar Björnsdóttur borgarfulltrúa um að hann reki hræðsluáróður.

Hildur svaraði því og sagðist standa við ummæli sín.

Í samtali við mbl.is segir Þórólfur að líta þurfi til annarra smitsjúkdóma en Covid-19.

„Ekki bara að við séum að hafa einhverjar takmarkanir út af öllum pestum sem eru í gangi heldur þurfum við að hugsa aðeins lengra – hvaða möguleika höfum við á að fást við Covid ef að mikið álag kemur á spítalann af völdum annarra pesta.“

Horfir mest til stöðunnar á spítalanum

Þórólfur hefur sagst horfa mest til stöðunnar á spítalanum hvað varðar afléttingar og segir að eftir bylgjuna sem kom í kjölfar afléttinganna í sumar hafi fjöldi innlagna á spítalann ráðið úrslitum um það að settar voru aftur á takmarkanir.

„Ég held að menn tali dá­lítið þannig að út af út­breidd­um bólu­setn­ing­um, sem svo sann­ar­lega eru að gera sitt, þá sé eng­in hætta á að við fáum hér far­ald­ur,“ seg­ir Þórólf­ur.

„Við feng­um far­ald­ur og vor­um vel bólu­sett í sum­ar, sjö­tíu pró­sent lands­manna voru bólu­sett í sum­ar þegar við aflétt­um öllu og við feng­um samt sem áður þessa bylgju, þannig við þurf­um að horfa á alla þessa reynslu og reyna að læra af henni.“

Ekki komin önnur afbrigði sem menn hafi áhyggjur af

Spurður hvort hann hafi áhyggjur af öðrum afbrigðum sem talin eru vera skæð, í samanburði við Delta-afbrigðið svokallaða segist Þórólfur ekki halda það.

„Það hafa ekki komið, svo ég hafi heyrt af, önnur afbrigði sem menn hafi áhyggjur af en auðvitað eru menn alltaf að fylgjast með því. Hér á landi er þetta nánast eingöngu Delta-afbrigðið sem hefur komið hingað inn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert